Erlent

Trump með nýtt bann en án Íraka

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Trump ásamt dómsmálaráðherra sínum, Jeff Sessions.
Donald Trump ásamt dómsmálaráðherra sínum, Jeff Sessions. vísir/epa
Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í gær út nýja tilskipun um ferðabann til Bandaríkjanna. Að þessu sinni er búið að taka Írak út af lista yfir þau lönd, sem bannið nær til.

Íbúum sex ríkja verður eftir sem áður bannað að ferðast til Bandaríkjanna næstu níutíu dagana. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa þessara ríkja eru múslimar.

Þessi sex ríki eru Íran, Jemen, Líbía, Sómalía, Súdan og Sýrland.

Jafnframt er í tilskipuninni, eins og þeirri gömlu, lokað á allt flóttafólk. Engum flóttamönnum verður leyft að koma til Bandaríkjanna næstu 120 dagana.

Í nýju tilskipuninni er hins vegar ekkert sérstakt ákvæði sem bannar sérstaklega sýrlenskum flóttamönnum að koma til Bandaríkjanna um óákveðinn tíma.

Bandarískir dómstólar töldu fyrri útgáfu tilskipunarinnar ekki stand­ast bandarísk lög og ógiltu hana þess vegna. Trump var harla ósáttur við þá niðurstöðu og boðaði breytingar á tilskipuninni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×