Erlent

Trump kominn aftur í kosningabaráttu: Fyrsti fjöldafundurinn fer fram í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst hefja kosningabaráttu sína fyrir kosningarnar árið 2020 í dag með sínum fyrsta fjöldafundi í Flórída. BBC greinir frá.

Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu er um að ræða „kosningafund fyrir Ameríku,“ en fundurinn verður með svipuðu sniði og þeir fjöldafundir sem Trump hélt í kosningabaráttu sinni, áður en hann var kosinn í nóvember síðastliðnum.

Óvenjulegt er að sitjandi forseti haldi slíka fjöldafundi en síðastliðin vika hefur verið erfið fyrir Trump og er talið að hann vilji með þessum hætti sýna fram á eigin styrkleika, í tilraun til að komast hjá neikvæðri umfjöllun fjölmiðla.

Á fimmtudaginn tísti forsetinn að fjölmiðlar væru óvinur Bandaríkjanna númer eitt eftir umtalaðan blaðamannafund en auk þess hefur mál Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump valdið honum miklum erfiðleikum. Kallað er eftir því að tengsl Trump við Rússa verði rannsökuð nánar.

Sjá einnig: Einstakur fréttamannafundur Trump í Hvíta húsinu

Þúsundir stuðningsmanna forsetans munu verða á kosningafundinum en mikill fjöldi mótmælenda hefur einnig boðað komu sína.

Þetta verður einungis fyrsti slíki fundurinn, af mörgum, næstu þrjú árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×