Erlent

Trump kennir Obama bæði um mótmæli og leka

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sakað Barack Obama og „hans fólk“ um að skipuleggja mótmæli víða um öll Bandaríkin sem beinast gegn Trump og Repúblikanaflokknum. Forsetinn sakaði Obama og bandamenn hans einnig um umfangsmikla upplýsingaleka til fjölmiðla.

Hluti af viðtali við Trump á Fox hefur verið birtur og þar spyr fréttamaður forsetann út í mögulega aðkomu að mótmælunum og lekunum og ýjar að því, án nokkurra sannanna, að svo sé.

Trump sagðist telja að Obama stæði á bak við mótmælin og þetta væri bara hluti af eðlilegum stjórnmálum.

Repúblikanar hafa sakað fyrrverandi forsetann um skipuleggja mótmæli í gegnum samtök sín sem heita Organizing for Action. Þingmenn flokksins hafa orðið fyrir mótmælum og aðkasti í umdæmum sínum undanfarna daga.

Hjá OFA starfa fjórtán manns, samkvæmt CNN, sem vinna við að þjálfa og kenna fólki hvernig skipuleggja eigi mótmæli og annað. Það gera sömuleiðis fjölmörg önnur samtök.

Lekar til fjölmiðla hafa leikið Trump og ríkisstjórn hans grátt síðan hann tók við embætti í janúar.

Trump hefur margsinnis tjáð sig um þá og segir þá ógna öryggi Bandaríkjanna. Þar að auki hefur hann skammast út í Alríkislögreglu Bandaríkjanna fyrir að stöðva ekki lekana, en annars kallar hann fréttir sem byggja á þessum lekum sem hann vill stöðva „falsfréttir“ og hefur sakað fjölmiðla um að ljúga til um heimildarmenn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×