Erlent

Trump: Íbúar Svíþjóðar vita að ég hef rétt fyrir mér

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að íbúar Svíþjóðar viti að hann hafi rétt fyrir sér um meint ástand mála þar í landi. BBC greinir frá.

Um síðustu helgi hélt Trump fjöldafund þar sem hann vísaði til árásar í Svíþjóð sem aldrei átti sér þó stað. Síðar sagði Trump að hann hefði ekki verið að tala um neitt sérstakt atvik þar í landi heldur frekar verið að vísa til aukinnar glæpatíðni í Svíþjóð.

Á fundi samtaka íhaldsmanna í Bandaríkjunum viðurkenndi Trump að hann hefði mátt þola mikinn þrýsting eftir ummæli sín um Svíþjóð en virðist þó ekki ætla að bakka með ummæli sín um „ástandið“ í Svíþjóð.

„Ég elska Svíþjóð,“ sagði Trump. „En íbúar Svíþjóðar vita að ég hef rétt fyrir mér,“ sagði Trump á fundinum fyrr í dag.

Trump hefur sakað fjölmiðla um að ljúga til um ástandið í Svíþjóð og tísti um daginn að fjölmiðlar væru að reyna að halda því fram að straumur innflytjenda til Svíþjóðar væri að virka stórvel.

Yfirvöld í Svíþjóð virðast þreytt á ónákvæmum upplýsingum um landið og hið meinta ástand þar varðandi innflytjendur og glæpi. Þau segja röngum upplýsingum um landið hafa verið dreift ítrekað að undanförnu og svöruðu rangfærslum sem komið hafa upp í umræðunni undanfarna daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×