Erlent

Trump hyggst sækja NATO-fund í maí

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst sækja fund NATO í Brussel þann 25. maí næstkomandi. Hvíta húsið greinir frá þessu í yfirlýsingu.

Búist er við að Trump muni þar ítreka þá kröfu sína að önnur aðildarríki bandalagsins leggi aukið fé í starfseminnar.

Í yfirlýsingu kemur fram að forsetinn hlakki til að hitta leiðtoga NATO-ríkjanna og ræða mál sem eru aðildarríkjunum mikilvæg, sér í lagi hvernig skuli skipta ábyrgðinni og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi nýverið frá því að hann muni ekki mæta á fund utanríkisráðherra aðildarríkjanna sem fyrirhugaður er 5.-6. apríl. Var ástæðan sögð fyrirhugað heimsókn Xi Jinping Kínaforseta til Bandaríkjanna.

Hvíta húsið hefur þó lagt til aðrar dagsetningar þar sem Tillerson gæti hitt utanríkisráðherra NATO-ríkjanna, en fulltrúar allra 28 aðildarríkja bandalagsins þurfa að koma sameiginlega að öllum ákvörðunum.

Trump mun funda með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í Washington í næsta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×