Erlent

Trump heldur árásum sínum á leyniþjónusturnar áfram

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GEtty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, veittist enn og aftur að leyniþjónustum Bandaríkjanna á Twitter í dag. Þar sakaði Trump samfélag leyniþjónustumanna um að hafa „líklegast“ lekið vægast sagt umdeildri skýrslu ólöglega til fjölmiðla. Í skýrslunni er því haldið fram að stjórnvöld í Rússlandi hefðu öðlast upplýsingar og myndbönd um Trump sem hægt væri að nota til að kúga hann.

Trump gaf einnig í skyn að hann sé aftur hættur að trúa því að Rússar hafi beitt tölvuárásum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar og segir að hans eigið fólk muni gera skýrslu um tölvuárásirnar.

Umrædd skýrsla hefur verið í dreifingu í Washington og víðar um margra mánaða skeið. Fjölmargir fjölmiðlar hafa gefið út að þeir hafi fengið afrit af skýrslunni í fyrra en hafi ekki birt neitt úr henni þar sem ekki hafi tekist að staðfesta það sem í henni stendur.

Forsvarsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna funduðu svo með Trump í síðustu viku, eftir að hann hafði ítrekað haldið því fram að alls 17 leyniþjónustur hefðu rangt fyrir sér um að Rússar hefðu beitt tölvuárásum til að hjálpa honum að vera forseti.

Eftir fundinn hafði Trump skipt um skoðun og sagði líklegt að Rússar hefðu gert umræddar tölvuárásir.

CNN sagði svo frá því í fyrradag að á fundi Trump og forsvarsmanna leyniþjónustanna hefðu þeir kynnt honum að þeir væru að skoða umrædda skýrslu og það sem stendur í henni. Skömmu seinna birti Buzzfeed skýrsluna í heild sinni. Þá hefur John McCain viðurkennt að hafa fært FBI skýrsluna og beðið um að innihald hennar yrði rannsakað.

Trump sakaði starfsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna um að hafa lekið skýrslunni.

„Þetta er eitthvað sem myndi gerast í Þýskalandi nasismans,“ sagði Trump svo um leyniþjónustuna

James Clapper yfirmaður þeirra hringdi því í hann.

Eftir símtal þeirra tísti Trump aftur og sagði að Clapper hefði fordæmt skýrsluna, sagt hana vera uppspuna. Þá tók Trump fram að skýrslunni hefði verið dreift ólöglega.

Fyrst er vert að benda á að það er ekkert ólöglegt við dreifingu skýrslunnar. Hún var samin af Christopher Steele, fyrrverandi starfsmanni MI6, leyniþjónustu Bretlands, sem starfar nú sjálfstætt. Hann var fenginn til að kanna tengsl Trump og stjórnvalda Rússlands af pólitískum andstæðingum Trump innan Repúblikanaflokksins.

Steele starfaði um árabil fyrir MI6 í Rússlandi og Frakklandi áður en hann hóf störf fyrir utanríkisráðuneyti Bretlands. Honum hefur verið lýst sem afar áreiðanlegum manni sem sagt hefur verið aðalástæða þess að John McCain bað bandarísku alríkislögregluna FBI, að rannsaka innihald hennar.

Skýrslan er ekki opinbert plagg og engin leynd hvílir yfir henni. Því er ekki rétt að dreifing hennar sé ólögleg.

Þá sendi Clapper frá sér yfirlýsingu eftir tíst Trump, þar sem hann lýsir símtali þeirra á allt annan veg en Trump.

Hann segir ljóst að þingmenn, embættismenn og fjölmiðlar hafi fengið skýrsluna áður en leyniþjónusturnar vissu af henni og því sé ljóst að þeir hafi ekki lekið henni á nokkurn hátt. Þar að auki sagði hann að leyniþjónusturnar hefðu hvorki staðfest að innihald hennar væri rétt eða rangt.


Tengdar fréttir

Munu rannsaka tilkynningar FBI um tölvupóst Clinton

Innra eftirlit bandaríska dómsmálaráðuneytisins hyggst rannsaka verkferla sem lágu að baki tveimur tilkynningum FBI en önnur er talin hafa haft áhrif á gengi hennar í kosningabaráttunni.

Trump telur Rússa líklega bera ábyrgð á tölvuárásum fyrir kosningarnar

Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna hélt sinn fyrsta blaðamannafund í dag síðan hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Á fundinum var meðal annars farið yfir skýrslu, sem nýlega kom fram, þar sem rússnesk stjórnvöld eru sögð bera ábyrgð á tölvuárásum sem demókrataflokkurinn varð fyrir rétt fyrir forsetakosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×