Erlent

Trump gengur harðskeyttur til fundar við NATO á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fundaði með forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, í dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fundaði með forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, í dag. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er nú staddur í Brussel, höfuðborg Belgíu. Hann mun funda með leiðtogum annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins, NATO, á morgun. BBC greinir frá.

Trump kom til Belgíu í dag en heimsókn hans er umdeild. Þúsundir mótmæltu komu hans í miðborg Brussel en á meðal hans fyrstu verka var að hitta belgísku konungshjónin.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, ræddi heimsóknina við blaðamenn í dag og sagði að forsetanum „væri mikið í mun að sannfæra aðildarríki Atlantshafsbandalagsins um að herða róðurinn og gangast að fullu við skyldum sínum.“ Trump hefur gagnrýnt NATO-ríkin harðlega fyrir að verja minna fé til varnarmála en samið var um.

Mótmælendur í Brussel voru ekki ánægðir með Bandaríkjaforseta.Vísir/AFP
Talið er að NATO-fundurinn muni snúast um stefnu aðildarríkjanna gagnvart hryðjuverkasamtökum, og þá sérstaklega ISIS. Búist er við því að Frakkland og Þýskaland muni samþykkja áætlun Bandaríkjanna um að NATO taki í auknum mæli að sér baráttu gegn hryðjuverkum.

„Ég held að við getum búist við því að forsetinn fari ekki mjúkum höndum um þau [önnur aðildarríki NATO] og að hann segi „við erum að gera mjög mikið. Bandaríska þjóðin gerir mikið fyrir öryggi ykkar, fyrir sameiginlegt öryggi. Þið verðið að ganga úr skugga um að þið standið líka ykkar plikt,““ sagði Tillerson um stefnu Bandaríkjaforseta er hann gengur til fundar við NATO á morgun.

Þá sagði Tillerson einnig að Trump væri ekki búinn að ákveða hvort Bandaríkin ætli að hætta við aðild sína að Parísarsamkomulaginu, sáttmála Sameinuðu þjóðana um viðbrögð við gróðurhúsaáhrifum.

Trump mun snæða hádegisverð með nýkjörnum forseta Frakklands, Emmanuel Macron, áður en hann fer á fund Atlantshafsbandalagsins á morgun. Þar mun hann einnig halda stutt erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×