Erlent

Trump fær Haley til að taka við stöðu sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum

Atli Ísleifsson skrifar
Nikki Haley er dóttir indverskra innflytjenda og yngsti ríkisstjórinn í Bandaríkjunum.
Nikki Haley er dóttir indverskra innflytjenda og yngsti ríkisstjórinn í Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Donald Trump hefur fengið Nikki Haley, ríkisstjóra Suður-Karólínu, til að taka við stöðu sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum þegar hann tekur sjálfur við embætti forseta.

Hinni 44 ára Haley hefur verið lýst sem vonarstjörnu innan Repúblikanaflokksins og var mjög gagnrýnin á Trump í aðdraganda forsetakosninganna. Hún sagðist hafa kosið Trump, en lýsti því jafnframt yfir að hún væri hvorki aðdáandi hans né Hillary Clinton.

Haley er dóttir indverskra innflytjenda og yngsti ríkisstjórinn í Bandaríkjunum.

Hún studdi Marco Rubio, öldungadeildarþingmann Flórída, í forkosningum Repúblikana, en lýst svo yfir stuðningi við Ted Cruz, þegar baráttan stóð milli þeirra Cruz og Trump.

Í frétt BBC segir að Haley hafi tekið við stöðu ríkisstjóra Suður-Karólínu árið 2010. Hún varð þá fyrsta konan og fyrsti frambjóðandinn úr minnihlutahópi til að gegna stöðunni í ríkinu, sem er talið vera mjög íhaldssamt.

Haley mun taka við stöðu sendiherra af Samantha Power.


Tengdar fréttir

Trump kynnir fyrstu aðgerðir sínar

Donald Trump ætlar að ryðja hindrunum úr vegi orkufyrirtækja, hætta við fríverslunarsamninga og banna fyrrverandi embættismönnum að stunda hagsmunagæslu. Mælist býsna vinsæll í nýrri skoðanakönnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×