Erlent

Trump boðar breytingar á skattkerfinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Trump í pontu á fundinum.
Trump í pontu á fundinum. vísir/afp
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblíkana, ætlar að fá tannhjól bandaríska hagkerfisins til að snúast hraðar með því að fækka reglugerðum og lækka skatta á fyrirtæki.

„Undir minni stjórn mun Ameríka fá fljúgandi start og það mun ekki verða það erfitt,“ sagði Trump í ræðu í Detroit. Fjölmargir mótmælendur mættu á fundinn og létu óánægju sína í ljós. Sagt er frá fundinum á vef BBC.

Meðal þess sem Trump lagði til var að breyta tekjuskattkerfinu. Í september í fyrra vildi hann hafa fjögur skattþrep, núll prósent, tíu prósent, tuttugu prósent eða 25 prósent. Í dag voru þrepin þrjú, tólf prósent, 25 prósent og 33 prósent. Sem stendur eru þrepin sjö talsins.

Þá lagði hann það til að erfðafjárskattur yrði aflagður og að aldrei yrðu meira en fimmtán prósent af innkomu fyrirtækja háð skatti. Hvergi kom fram hvernig eða hvort Trump ætlaði að fá fé inn með öðrum leiðum eða hvort hann ætlaði að skera niður á móti.

Á fundinum reyndi Trump að snúa vörn í sókn eftir slæma afkomu í liðinni viku. Að auki nýtti hann tækifærið til að skjóta á Hillary Clinton. „Hún er frambjóðandi fortíðar. Barátta okkar er fyrir framtíðina.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×