Erlent

Trump ánægður með frammistöðuna í kappræðunum: Vildi ekki gera Clinton vandræðalega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump í kappræðunum á mánudaginn.
Trump í kappræðunum á mánudaginn. vísir/getty
Donald Trump ávarpaði stuðningsmenn sína í Flórída á kosningafundi í nótt og gerði meðal annars fyrstu sjónvarpskappræður sínar við Hillary Clinton að umtalsefni, en þær fóru fram á mánudag. Hann sagði stuðningsmönnum sínum að hann hefði verið að halda aftur af sér því hann vildi ekki „gera hana vandræðalega.“

Í umfjöllun Guardian um kosningafundinn kemur fram að Trump hafi sagt að hver einasta könnun sýndi að hann hefði unnið kappræðurnar en vitnaði þó einungis í internetkannanir. Að því er fram kemur í frétt Guardian hafa allar vísindalegar kannanir sem gerðar hafa verið á frammistöðu þeirra Trump og Clinton sýnt að áhorfendur telja þá síðarnefndu hafa staðið sig betur.

Trump gagnrýndi fjölmiðla harðlega á kosningafundinum og sagði stóru fjölmiðlarisana vera spillta. Þá gagnrýndi hann einnig Lester Holt, fréttamann NBC, sem stjórnaði kappræðunum en á kosningafundinum lýsti Trump því hvernig honum hefði liðið þegar hann steig á sviðið.

„Ég dró andann djúpt og ímyndaði mér að ég væri að fara að tala við fjölskylduna mína,“ sagði Trump. Hann rifjaði síðan upp það sem hann sagði vera bestu frasana sína úr kappræðunum, eins og til dæmis „Þú ert með reynslu en reynslan þín er slæm,“ auk þess sem hann hrósaði sjálfum sér fyrir að standa sig vel þegar kom að því að ræða alþjóðaviðskipti.

Þá ítrekaði hann þá fullyrðingu sína, sem hrakin var af staðreyndavakt fjölmargra fjölmiðla á meðan á kappræðunum stóð, að hann hefði ekki stutt innrásina í Írak.

„Og trúa mér ekki allir þegar ég segi að ég var á móti innrásinni í Írak?“ spurði hann á kosningafundinum í gær.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×