Erlent

Trump ætlar að gera undantekningu fyrir Khan

Gunnar Reynir Valþórsson og Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifa
Khan, til vinstri, hefur ekki trú á því að öfgasjónarmið Trumps, til hægri, nái fram að ganga.
Khan, til vinstri, hefur ekki trú á því að öfgasjónarmið Trumps, til hægri, nái fram að ganga. Vísir/EPA
Donald Trump, frambjóðandi Repúblikana í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, segir að gerð yrði undantekning fyrir nýkjörinn borgarstjóra Lundúna ef fyrirhugað bann Trumps við því að múslimum verði hleypt inn í Bandaríkin næði fram að ganga.

Sadiq Khan var kjörinn borgarstjóri um helgina og er hann fyrsti músliminn til að setjast í borgarstjórastól vestrænnar stórborgar í sögunni. Khan hefur lýst yfir áhyggjum af þessum fyrirætlunum Trumps, sem segir hann þó ekki þurfa að óttast, gerð verði undantekning fyrir hann.

Khan hafði reyndar bætt því við að hann hefði enga trú á því að öfgahugmyndir eins og þessi frá Trump nái fram að ganga í Bandaríkjunum.

Trump velur sér varaforsetaefni

Trump tókst að sigra andstæðinga sína í keppninni um tilnefningu Repúblikana nú í maí en hann sigraði forkosningar í hverju fylkinu á fætur öðru. Það varð til þess að hans helsti keppinautur, öldungardeildarþingmaðurinn frá Texas Ted Cruz, sagði sig frá baráttunni 3. maí. Það gerði hann eftir að hann tapaði í forkosningum í Indiana-fylki. Ríkisstjóri Ohio John Kasich sem keppti um sömu tilnefningu hætti svo stuttu síðar. Hann hafði þó aldrei veitt Trump neina raunverulega samkeppni.

Nú á Trump eftir að velja sér varaforsetaefni en vaninn er sá að forsetaframbjóðandi reyni að velja sér varaforsetaefni sem getur bætt upp fyrir kosti sem frambjóðandann vantar. Trump hefur lýst því yfir að hann leiti að varaforsetaefni sem þekkir vel bandaríska þingið og geti hjálpað Trump að koma erfiðum málum í gegnum þingið.  


Tengdar fréttir

Múslimi kosinn sem borgarstjóri í London

Átta ára valdatíð Íhaldsflokksins í Lundúnum er lokið. Skoski þjóðarflokkurinn missti meirihluta á skoska þinginu en Verkamannaflokkurinn galt þar afhroð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×