Erlent

Trump ætlar að fórna viðskiptum fyrir embættið

Guðsteinn bjarnason skrifar
Kvöldið áður en Trump skýrði frá því að hann ætlaði að segja skilið við viðskiptalífið snæddi hann með Mitt Romney, fyrrverandi mótframbjóðanda sínum, sem fram að því hafði ekki farið fögrum orðum um Trump.
Kvöldið áður en Trump skýrði frá því að hann ætlaði að segja skilið við viðskiptalífið snæddi hann með Mitt Romney, fyrrverandi mótframbjóðanda sínum, sem fram að því hafði ekki farið fögrum orðum um Trump. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, sem tekur við forsetaembætti Bandaríkjanna í janúar, skýrði frá því í gær að hann ætlaði að hætta með öllu að taka þátt í viðskiptum.

„Forsetaembættið er miklu mikil­vægara verkefni,“ skrifar hann á Twitter-reikning sinn.

Hann segist ætla að skýra nánar frá því hvernig hann ætlar að haga þessu á blaðamannafundi í New York þann 15. desember.

„Þótt mér beri ekki lagaleg skylda til að gera þetta, þá finnst mér það mikilvægt út á við að ég lendi ekki í neinum hagsmunaárekstrum við fyrirtæki mín sem forseti,“ segir Trump.

Börnin hans verða með honum á blaðamannafundinum í New York, sem bendir kannski til þess að þau eigi að yfirtaka reksturinn. Annar möguleiki er sá að fyrirtækin verði sett í hendur sérfræðinga til umsýslu, þar sem Trump og fjölskylda hans fengju engu ráðið.

Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að halda að hann verði laus við hagsmunaárekstra með því einu að láta börnum sínum eftir fyrirtækin. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×