Erlent

Trump á í basli með hvítar konur

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana, þarf að heilla hvítar konur, ætli hann sér að ná kjöri til embættis forseta Bandaríkjanna. Meðal kvenna í Bandaríkjunum eru þær hvítu líklegastar til að kjósa Repúblikana, en um 70 prósent kvenna í landinu líkar illa við forsetaframbjóðandann. Hvítar konur sem hingað til hafa jafnvel ávalt kosið frambjóðenda Repúblikana eru tvístígandi vegna Trump.

Nýverið voru neikvæð ummæli Trump um konur rifjuð upp í sjónvarpsauglýsingu sem gerð var af kosningasjóði sem styður Clinton. Auglýsingin endaði á spurningunni: „Talar Donald Trump í alvörunni fyrir þig?“

AP fréttaveitan ræddi við þó nokkrar konur sem hingað til hafa ávallt kosið Repúblikana og geta ekki hugsað sér að kjósa Donald Trump. Þá er rætt við einhverjar sem ætla sér að kjósa hann en er illa við að gera það.

Nái Clinton að vinna þessar konur á sitt band gæti það hjálpað framboði hennar verulega. Starfsmenn framboðs hennar sjá tækifæri í óvinsældum Trump í svokölluðum sveifluríkjum, þar sem oft er mjótt á munum á milli flokka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×