Innlent

Trúir því að salan styrki byggð á Seyðisfirði

Adolf Guðmundsson.
Adolf Guðmundsson.
Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gullbergs ehf. á Seyðisfirði, hefur tilkynnt stjórn LÍÚ að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku í sambandinu. Adolf hefur verið formaður stjórnar LÍÚ frá árinu 2008, eða í sex ár. Hann hverfur frá formennsku þar sem hann verður ekki lengur aðili að sambandinu eftir sölu fyrirtækisins.

„Þetta var einfaldlega ákvörðun hluthafa félagsins á aðalfundi í maí. Það er ekki mikið meira um tilurð sölunnar að segja,“ segir Adolf. Hluthafar eru fjórtán, en um gróið fjölskyldufyrirtæki er að ræða.

„Þetta er stór ákvörðun fyrir okkur. Eitt skilyrða var að tryggt yrði, eins og hægt er, að áfram yrði gert út frá Seyðisfirði og reynt yrði að styrkja fiskvinnslu eftir fremsta megni. Ég held því fram að þessi samningur eigi eftir að renna styrkari stoðum undir byggð á staðnum,“ segir Adolf sem trúir því að sala til Síldarvinnslunnar sé gæfuspor og þess vegna hafi verið leitað þangað með kaupin.

Adolf telur ekki rétt að greina frá einstökum atriðum er varða kaupin fyrr en samþykki Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×