Innlent

Trúir því að fjárframlög verði aukin þegar hún sér það gert

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, segir að fjárlaganefnd hafi rætt vanda Landsspítalans, áhrif matarskatts og fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla að undanförnu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu á haustfundi framsóknarmanna á Höfn í Hornafirði að í byrjun nýrrar viku yrði traustari stoðum rennt undir fjölmörg mikilvæg verkefni og stofnanir ríkisins.

Þannig munu heilbrigðis- og menntastofnanir fá aukin framlög en einnig aðrar grunnstoðir eins og Landhelgisgæslan og mikilvæg verkefni á borð við lýðheilsuátak og byggðamál.

Á næsta ári verði framlög til Landspítalans þau mestu sem þau hafa verið frá 2008, ekki aðeins í krónutölu heldur að raunvirði.

Flestar vörur muni lækka í verði og nauðsynleg lyf alveg sérstaklega. Heildaráhrif breytinganna þýði að neysluskattar lækki verulega og, það sem sé mikilvægast, áhrifin yrðu mest hjá þeim tekjulægstu.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar baðst undan viðtali í morgun og sagði tíðinda að vænta eftir fund fjárlaganefndar á morgun. Oddný Harðardóttir fulltrúi Samfylkingar í fjárlaganefnd segir þetta hljóma vel en hún trúi því ekki fyrr en hún sjái það. Hún sagði að miðað við þetta hlyti læknadeilan að leysast fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×