Skoðun

Trúfrelsi barna

Natan Kolbeinsson og Ída Finnbogadóttir skrifar
Mikil umræða hefur staðið undanfarin ár um stjórnarskrána, hvernig umgjörðinni um stjórnskipan lýðveldisins skuli háttað og þann rétt sem henni er ætlað að tryggja borgurunum.

Í 74. grein stjórnarskrár lýðveldisins er ákvæði sem ætlað er að tryggja okkur félagafrelsi, samkvæmt ákvæðinu á það að vera undir okkur sjálfum komið hvort við viljum tilheyra ákveðnum félagskap eða ekki. Þó hefur Alþingi allt fram á síðustu ár sett þessu frelsi skorður. Auk félagafrelsis er í stjórnarskrá ákvæði um trúfrelsi. En til hverra nær þetta trúfrelsi nákvæmlega? Þegar við ræðum trúfrelsi þá gleymist oft að börn eru sjálfkrafa skráð í það trúfélag sem foreldrar þeirra tilheyra og trúfrelsi þeirra þar með settar skorður.

Síðustu mánuði hefur sprottið upp umræða um hvernig hátta eigi samskiptum þjóðkirkjunnar (og trúfélaga almennt) við skóla. Á að fara í kirkjuheimsóknir á skólatíma, gefa 5. bekkingum Nýja testamentið o.s.frv. Þeir sem gagnrýnt hafa það fyrirkomulag sem komist hefur á síðustu áratugi hafa verið sakaðir um einhverskonar árás á kristin gildi eða þjóðkirkjuna.

Flestir sem gagnrýnt hafa kirkjuheimsóknir í núverandi mynd hafa þó getað fellt sig við hana sem þátt í trúarbragðafræðslu, slík kynning þyrfti þó að felast í öðru en að hlýða á jólahugvekjuna eða annað trúboð í hefðbundnum skilningi. Okkur að vitandi hafa skólayfirvöld heldur ekki lagt sig eftir að skipuleggja heimsóknir í trúfélög sem part af trúarbragðafræði nema þegar kemur að því að heimsækja kirkjuna.

Þessi tvö mál, skráning í trúfélag og kirkjuheimsóknir skólabarna, virðast kannski ekki eiga margt sameiginlegt. Það er samt þannig að þau snúast hvoru tveggja að miklu leiti um trú- og félagafrelsi barna. Bæði frelsi barna til mynda sé sínar eigin trúarskoðanir áður en þau eru skráð í trúfélag og réttur þeirra til að stunda nám sitt án þess að utanaðkomandi aðilar reyni að hafa þar áhrif á trúarviðhorf þeirra, varða trúfrelsi barnsins.

Líkt og öll önnur félagasamtök ættu trúfélög ekki að eiga rétt á að skrá til sín einstaklinga sem hvorki hafa aldur eða forsendu til þess að mynda sér sjálfstæðar skoðanir um trúmál.

Réttur foreldra til að ala börnin sín upp eins og þeim sýnist best er mikill. En hvenær fer sá réttur að skarast á við eðlileg réttindi barnsins? Í samfélagi þar sem trúfrelsi er stjórnarskrárvarið hlýtur það að vera sjálfsögð krafa okkar allra að ekkert trú- eða lífsskoðunar félag hafi rétt á því að skrá til sín meðlimi sem ekki sækjast eftir því sjálfir.

Ef boðlegt er að skrá barn sem meðlim í trúfélag við fæðingu, hvað er þá því til fyrirstöðu að skrá það á sama tíma í stjórnmálaflokk eða önnur félagasamtök, sum hver jafnvel með djúpar rætur í samfélaginu? Hvern langar ekki að fæðast inn í góðtemplararegluna eða kvenfélagið Gleym mér ei á Grundarfirði? Ættum við ekki leyft börnum að njóta vafans þar til þau hafa aldur til þess að mynda sér sínar eigin skoðanir?

Höfundar eru stjórnarmenn í Ungum jafnaðarmönnum




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×