Erlent

Trudeau vill lögleiða kannabis í Kanada á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Lögleiðing kannabis var eitt umdeildasta kosningamál Trudeau í aðdraganda þingkosninganna 2015.
Lögleiðing kannabis var eitt umdeildasta kosningamál Trudeau í aðdraganda þingkosninganna 2015. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, mun á næstu dögum kynna lagafrumvarp sem felur í sér að kannabis verði lögleitt í landinu frá 1. júlí á næsta ári.

CBC News greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Með lagafrumfarpinu verður farið að ráðleggingum sérstaks starfshóps stjórnvalda sem var með málið til umfjöllunar og kynnti skýrslu sína í desember síðastliðinn.

Lögleiðing kannabis var eitt umdeildasta kosningamál Trudeau í aðdraganda þingkosninganna 2015 þar sem hann lýsti skýrum vilja sínum til að breyta fíkniefnalöggjöf landsins.

Samkvæmt tillögunum munu undirstofnanir alríkisstjórninnar halda utan um eftirlit með framleiðslu marijúana og sjá um leyfisveitingar fyrir framleiðendur. Það verður svo á borði einstakra fylkja að ákveða þætti er varða verðlagningu, dreifingu og sölu.

Í frétt CBC kemur fram að kannabiskaupaaldur verði að lágmarki átján ár, en að það verði fylkjum í sjálfsvald sett að hafa aldurinn hærri, kjósi þau svo.

Heimilt verður að vera með fjórar marijuanaplöntur að hámarki á hverju heimili.

Samhliða lagabreytingunni er ætlunin að leggja aukið fé til að efla meðferðarúrræði fyrir þá sem á þurfa að halda. Þá á að herða refsingar fyrir sölu á kannabis til þeirra sem eru yngri en átján ára, ólöglega sölu og fyrir að aka bíl undir áhrifum kannabisefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×