Lífið

Trommari Sólstafa greinir frá brotthvarfi sínu í tilfinningaþrunginni yfirlýsingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Hljómsveitin Sólstafir. Guðmundur trommari er annar frá vinstri en Aðalbjörn Tryggvason er lengst til hægri á myndinni.
Hljómsveitin Sólstafir. Guðmundur trommari er annar frá vinstri en Aðalbjörn Tryggvason er lengst til hægri á myndinni. Mynd/Bjorn Arnason
„Það erfiðasta við þessa yfirlýsingu er að færa alla athyglina á sjálfan mig,“ segir trommuleikarinn Guðmundur Óli Pálmason í yfirlýsingu þar sem hann rekur ástæður þess hvers vegna hann er ekki lengur trommuleikari hljómsveitarinnar Sólstafa.

Guðmundur segist hafa farið yfir tölvupóstinn sinn að morgni 20. janúar síðastliðinn þar sem hann bjóst við að finna upplýsingar um flug í tengslum við fyrirhugaða tónleikaferð Sólstafa sem átti að hefjast degi síðar. Í stað þess segist hann hafa fundið tölvupóst frá félaga sínum í sveitinni Aðalbirni Tryggvasyni sem var undirritaður af Aðalbirni og félögum Guðmundar í Sólstöfum.

Greindu þeir honum frá því að þeir hefðu ákveðið að reka hann úr bandinu. „Bandið sem ég hef lagt blóð, svita og tár í síðstliðin 20 ár og sögðu ástæðun vera samskipta erfiðleika okkar á milli,“ segir Guðmundur í yfirlýsingunni og segir hann þessa erfiðleika hafa verið skrifaða á sig sem honum þykir ósanngjarnt.

Segist hafa viljað ná sáttum

Hann segist hafa hringt í flugfélagið og fengið þær upplýsingar að flugmiði hans hefði verið afturkallaður án hans vitneskju. „Í miklu stressi keypti ég nýja miða og neitaði að staðfesta rétt Aðalbjörns til að reka mig úr sveitinni sem ég stofnaði með honum fyrir 20 árum. Svar Aðalbjörns var að gera mér það alveg skýrt að hann myndi neita því að spila með mér á sviði og það myndi skaða sveitina og gera það ómögulegt að ná nokkrum sáttum í framtíðinni. Ég ákvað að það væri þess virði að reyna að leysa þetta mál með orðum í stað átaka,“ skrifar Guðmundur.

Hann segist hafa grátbeðið þá um að gera þetta ekki en segist hafa fengið þau svör að félagar hans í sveitinni yrðu mögulega viljugir að endurskoða þessa ákvörðun eftir mánuð, hálft ár eða ár.

„Neyddur til að sitja þögull heima“

„Ég var neyddur til að sitja þögull heima og fylgjast með því hvernig ævistarfið var tekið frá mér og mér gert grein fyrir því að ef ég myndi ræða þetta opinberlega þá yrði enginn möguleiki á því að ég fengi aftur sæti mitt í sveitinni,“ segir Guðmundur.

Hann segir að með þessu hafi meðlimir Sólstafa reynt að tryggja að þeir gætu sagt skilið við Guðmund án allra láta. Hann segir litla klausu hafa fylgt Facebook-pósti frá sveitinni þess efnis að Guðmundur yrði ekki á tónleikaferðlaginu vegna persónulegra ástæðna.

Bókaði tíma með fjölskylduráðgjafa

Guðmundur segist hafa bókað tíma með fjölskylduráðgjafa fyrir alla meðlimi sveitarinnar. Hann segir þá hafa fengið einn og hálfan tíma bókaðan með ráðgjafa til að ræða þessa ákvörðun sem hafði mikil áhrif á líf hans. „Þrátt fyrir þann skamma tíma þá mættu þeir fimmtán mínútum of seint. Veðrið var reyndar slæmt þann dag en þá leggur þú fyrr af stað.“

Þegar þeir voru allir komnir saman var þeim tjáð af ráðgjafanum að ef hitna færi í kolunum myndu þeir taka fimm mínútna pásu til að róa sig og byrja aftur.

Hann segir fundinn hafa gengið illa og ekki hafi myndast tilefni til sátta.

Hann segist hafa leitað réttar síns vegna málsins og þá vegna notkunar á nafninu Sólstafir og þá segist hann vera komin í mikla skuld vegna lögfræðikostnaðar og fyrirtækisins sem rak hljómsveitina. Hann segist ekki saklaus af hegðun sem gæti stuðlað að samskipta erfiðleikum innan bandsins.

Söknuður af kunningjum um allan heim

„Við erum allir sekir um slíkt, en ólíkt þeim þá hef ég viðurkennt minn hlut og hef aðeins beðið um að mér sé ekki einum kennt um þetta allt saman.“ Hann segir sinni þátttöku í tónlistarbransanum lokið. Hann muni ekki sakna viðskiptahliðarinnar en á þó eftir að sakna alls fólksins sem hann hefur kynnst á ferðum sínum um heiminn.

„Við Aðalbjörn vil ég segja: Mig grunar að þessari yfirlýsingu verði mætt með árásum á mína persónu. Þrátt fyrir að ég hafi viljað koma henni frá mér þá mun ég ekki láta draga mig í opinber átök. Ég hef aldrei viljað ata nafn hljómsveitar minnar í aur,“ segir Guðmundur sem biðlar til Aðalbjörns að nýta þetta tækifæri til að ræða við hann og leita sátta.

„Vertu meiri maður. Ég er ekki á nokkurn hátt fullkominn, fjarri því, og ég hef gert mistök, en það hafa allir gert. Á ég það ekki skilið eftir 25 ára vináttu? Á bandið það ekki skilið eftir 20 ár af erfiðisvinnu og fórnum? Ég vona að þú sjáir að refsingin er ekki í samræmi við glæpinn.“

Sjá yfirlýsinguna í heild hér.

Aðalbjörn Tryggvason neitaði að tjá sig um málið við Vísi þegar eftir því var leitað. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×