Skoðun

Treystu mér!

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Ísland, ásamt flestum vestrænum ríkjum, er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) sem hefur það að markmiði að auka hagsæld aðildarlanda sinna. OECD er þeirrar skoðunar að ójöfnuður minnki bæði traust á stjórnmálamönnum og hagsæld og var það umfjöllunarefni árbókar stofnunarinnar á síðasta ári. Ekkert minnki traust þó meira en spilling.

OECD bendir á að þegar traust á stjórnmálamönnum sé eins lítið og nú höfði stefnumál sem bera sýnilegan ávöxt hratt sterkast til kjósenda. Gott innlent dæmi um slíkt mál er „Leiðréttingin“. Á sama tíma hafi kjósendur minni áhuga á stefnumálum sem beri ávöxt að löngum tíma liðnum, en færa má rök fyrir að aðild að Evrópusambandinu sé slíkt mál.

Nýleg skoðanakönnun MMR sýnir að traust á íslenskum stjórnmálamönnum er mjög lítið. Í ljósi umræðunnar í samfélaginu, t.d. um lekamálið og loforðs núverandi ráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið sem ekki stendur til að efna, eru allar líkur á því að það traust aukist lítið á þeim tveimur árum sem eru til kosninga.

Raunsæir stjórnmálamenn taka mið af því umhverfi sem þeir starfa í. Til þess að ná árangri leggja þeir því áherslu á stefnumál sem bera sýnilegan ávöxt innan skamms tíma. Gott dæmi um slíkt stefnumál væri ráðstöfun auðlindaarðs beint til þjóðarinnar, líkt og gert er nú þegar í Alaska. Sérfræðingar áætla að með uppboði á kvóta og sæstreng til Evrópu gæti árlegur auðlindaarður numið á annað hundrað milljarða króna sem jafngildir nokkur hundruð þúsund krónum árlega á hvern lifandi Íslending. Ólíkt „Leiðréttingunni“ myndi sú aðgerð minnka ójöfnuð og stuðla að hagvexti.

Á nýliðnum landsfundi Samfylkingarinnar lagði undirritaður til framangreinda stefnu og var tekið sæmilega í málið. Betur má ef duga skal enda má efast um að flokkum sem láta bara nægja að biðja fólk um að treysta sér vegni vel í næstu kosningum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×