Skoðun

Tréhestahugsun í menntamálum

Jón Þorvarðarson skrifar
Í skýrslu um stærðfræðikennslu í framhaldsskólum, sem sérfræðingahópur á vegum menntamálaráðuneytisins sendi nýverið frá sér, er fullyrt að sumir framhaldsskólar útskrifi nemendur af náttúrufræðibraut með prófgráður sem eru nánast að engu hafandi.

Ennfremur er bent á að nýnemar við HÍ standi sig misvel á könnunarprófum í stærðfræði eftir því frá hvaða framhaldsskóla þeir koma. Í ljósi þess hve munurinn er mikill milli einstakra skóla þurfa þeir skólar sem koma lakast út að fara í naflaskoðun og reyna að bæta sinn árangur. Þessi sláandi niðurstaða hefur í raun legið fyrir um langt skeið, en einhverra hluta vegna hafa hæstráðendur menntamála kosið að sitja með hendur í skauti.

En hvaða tillögur lagði sérfræðingahópurinn fram til úrbóta? Í sem stystu máli leggur hópurinn áherslu á að bæta þurfi menntun kennara, auka símenntun og snurfusa nokkrar kennslubækur. Auk þess er lagt til að komið verði á fót fagráði sem m.a. hafi það hlutverk að hafa eftirlit með kennslu og árangri í stærðfræði ásamt því að stjörnumerkja kennslubækur í stærðfræði. Að áliti skýrsluhöfunda virðist sem stærðfræðikennurum sé ekki treystandi til að meta gæði kennslubóka.

Ýmsar tillögur sérfræðingahópsins eru vissulega góðra gjalda verðar en skýrslan fær engu síður falleinkunn fyrir að hafa ekki tekið á grundvallaratriðum sem krefjast skýrra svara. Varðandi umfjöllun hópsins um náttúrufræðibraut ásamt þeim niðurstöðum sem henni eru tengdar var nauðsynlegt að draga eftirfarandi lykilspurningu fram í dagsbirtuna: Er skynsamlegt að sem flestir framhaldsskólar starfræki náttúrufræðibraut?

Fá skemmri skírn

Svarið gæti vissulega verið já, ef við höfum aðgang að ótakmörkuðu fjármagni. En það er útópía sem gagnslaust er að ræða nánar. Ef við höldum okkur við raunveruleikann þá liggur fyrir að flestir framhaldsskólar búa við tiltölulega þröngan efnahag og það eru fá teikn á lofti um viðsnúning á því sviði. Kröfur um sparnað og hagræðingu gerast æ háværari enda á almenningur skýlausan rétt á því að skattfénu sé vel ráðstafað. Gegn þessum straumi tímans sitja einstakir skólastjórnendur sem verja lendur síns skóla með öllum tiltækum ráðum. Enginn vill missa spón úr aski sínum. Marghrjáð náttúrufræðibraut skal hafin til hæstu hæða og bera uppi merki skólans um ókomna framtíð. Hvað sem tautar og raular. Þeir neita að horfast í augu við þann veruleika að innistæða brautarinnar er horfin. Fyrir löngu síðan.

Sökum langvarandi fjárhagsþrenginga hafa sömu skólar átt í stökustu vandræðum með að bjóða upp á námsáfanga sem skilyrðislaust ættu að standa nemendum til boða á náttúrufræðibraut. Til að halda skútunni á floti eru nauðsynlegir/æskilegir áfangar á náttúrufræðibraut miskunnarlaust skornir niður. Námi nemenda er þar með beinlínis stefnt í voða hvað frekara framhald varðar. Þeir fá skemmri skírn. Þeir borga brúsann að lokum.

Það er í rauninni ljótur leikur ástundaður þegar sumir skólar laða til sín nemendur undir því yfirskini að þar sé starfrækt metnaðarfull náttúrufræðibraut þegar raunin er sú að brautin stendur ekki undir nafni. Allir gjalda afhroð. Nemendur eru grátt leiknir. Orðstír skólans bíður hnekki. Væntingar skólastjórnenda um að von sé á betri tíð með blóm í haga er rödd hrópandans í eyðimörkinni. Skólaþróunin undanfarin 15-20 ár talar sínu máli. Ef horft er til framtíðar þá er krafan sú að skólarnir greini sig hver frá öðrum í auknum mæli og erji sinn akur.

Óhrekjanleg staðreynd

Flestir framhaldsskólar eiga sitt flaggskip, ef svo má að orði komast, og sumir skólar eiga reyndar nokkur flaggskip innan sinna raða. Það er löngu orðið tímabært að ráðamenn átti sig á þeirri óhrekjanlegu staðreynd að náttúrufræðibraut getur ekki verið flaggskip allra skóla þegar hún er í raun veikasti hlekkur sumra skóla. Vissulega getur verið erfitt fyrir einstaka skólahugsuði, sumir hverjir lokaðir í eigin heimi, að horfast í augu við þá staðreynd að forsendur tiltekinnar námsbrautar séu brostnar með öllu og að hún sé í dauðateygjunum. En skólapólitík snýst ekki um draumsýnir eða einstaka skólastjórnendur. Þess vegna er það í verkahring hæstráðenda menntamála að bregðast við með afgerandi hætti og draga menn niður úr skýjunum og koma þeim niður á jörðina. Nemendum til hagsbóta. Þjóðfélaginu til hagsbóta.

Sannleikurinn er einfaldlega þessi: Fjölmargir framhaldsskólar eru vel í stakk búnir til að starfrækja öfluga og metnaðarfulla náttúrufræðibraut. Þeir skila mjög hæfum nemendum til háskólanáms í stærðfræðitengdum greinum. Það er þeirra gersemi. Styrkur annarra skóla liggur á allt öðrum sviðum og að þeim styrkleika ber að hlúa. Það nær engri átt að allir framhaldsskólar séu að atast í því sama með mjög misjöfnum árangri. Skólar fá sinn dóm af því sem vel er gert.




Skoðun

Sjá meira


×