Enski boltinn

Toure segist ekki metinn að verðleikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Yaya Toure fagnar marki í leik með Manchester City.
Yaya Toure fagnar marki í leik með Manchester City. Vísir/Getty
Yaya Toure segir að hann sé ekki talinn einn besti knattspyrnumaður heims vegna þess að hann er afrískur.

Þetta segir hann í viðtali við fréttastofu BBC en hann telur að hann, ásamt Didier Drogba og Samuel Eto'o, sé vanmetinn sem knattspyrnumaður þar sem hann er frá Afríku.

„Það eru bara stuðningsmennirnir sem hafa veitt okkur almennilega viðurkenningu,“ sagði Toure meðal annars í viðtalinu. „Ég vil ekki ræða þessi mál á neikvæðum eða ósanngjörnum nótum en ég vil vera heiðarlegur.“

Hann segir að fjölmiðlar eigi stóran þátt í þessu og að afrískir leikmenn þurfi að gera meira til að vekja athygli á sér.

Spánverjarnir Iniesta og Xavi, fyrrum liðsfélagar Toure hjá Barcelona, séu til að mynda sjaldan gagnrýndir fyrir varnarmistök. Toure segist hins vegar fá að heyra það í fjölmiðlum í hvert sinn sem hann gerir mistök í vörn.

Toure er enn fremur óánægður með að leikmenn eins og hann sjálfur séu ekki jafn þekktir og Lionel Messi.

„Það er sama hvert þú ferð í Afríku - allir þekkja Messi. En fólk í Evrópu þekkir ekki Yaya Toure. Sumir þekkja nafnið en ekki andlitið mitt. En allir þekkja andlit Messi,“ sagði Toure.

Hann hefur orðið meistari í fjórum löndum - Fílabeinsströndinni, Grikklandi, Spáni og Englandi. Hann var einnig í liði Barcelona sem vann allt sem hægt var að vinna árið 2009.

Toure er 30 ára gamall og hefur skorað 22 mörk á tímabilinu til þessa. Hann segir að hann verði fyrir vonbrigðum verði hann ekki valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er mjög stoltur af því að vera Afríkumaður. Ég vil koma afrísku fólki til varnar og sýna heiminum að afrískir leikmenn geta verið jafn góðir og þeir frá Evrópu og Suður-Ameríku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×