Fótbolti

Toure: Ég er 35 ára en gerði mistök sem 16 ára leikmenn gera

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Toure var niðurbrotinn eftir leikinn gegn Mönchengladbach.
Toure var niðurbrotinn eftir leikinn gegn Mönchengladbach. vísir/getty
Kolo Toure, varnarmaður Celtic, átti ekki sinn besta leik þegar skosku meistararnir töpuðu 0-2 fyrir Borussia Mönchengladbach í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.

Toure átti sök á mörkunum tveimur en í bæði skiptin missti hann boltann klaufalega frá sér.

Þessi reynslumikli varnarmaður var heiðarlegur í svörum eftir leikinn og vissi greinilega upp á sig skömmina.

„Ég er 35 ára en gerði mistök sem 16 ára leikmenn gera. Þú hefur ekki efni á að gera svona mistök í þessari keppni,“ sagði Toure.

„Ég kenni sjálfum mér um því það var auðvelt fyrir mig að setja boltann til hliðar. Ég vil halda boltanum en var of öruggur með mig. Mér finnst ekki gaman að gera mistök en þau eiga sér stað,“ bætti Fílabeinsstrendingurinn við en hann kom til Celtic frá Liverpool í sumar.

Celtic situr á botni C-riðils með aðeins eitt stig eftir þrjár umferðir. Næsti leikur liðsins í Meistaradeildinni er gegn Mönchengladbach á útivelli 1. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×