Enski boltinn

Tottenham vann skyldusigur á Fulham

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Tottenham styrkti stöðu sína í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni með 3-1 sigri á Fulham á White Hart Lane í dag. Tottenham er sex stigum fyrir ofan Manchester United eftir leikinn en rauðu djöflarnir eiga tvo leiki til góða.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á varamannabekk Tottenham í dag og kom ekki við sögu í leiknum.

Heimamenn í Tottenham höfðu undirtökin í leiknum og náðu verðskuldað forskotinu eftir 35. mínútna leik þegar Paulinho stýrði aukaspyrnu Christian Eriksen í netið. Fulham var hinsvegar ekki lengi að jafna metin, Steve Sidwell var þar að verki þegar hann lyfti boltanum yfir Hugo Lloris í marki Tottenham.

Harry Kane kom Spurs aftur yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiks með góðu skallamarki áður en Younes Kaboul gerði endanlega út um leikinn korteri síðar þegar hann stýrði aukaspyrnu Eriksen í netið. Sidwell fékk tækifæri til að minnka muninn af vítapunktinum en Lloris varði slaka spyrnu hans.

Það voru því leikmenn Tottenham sem tóku stigin þrjú í dag. Von liðsins um sæti í Meistaradeildinni lifir enn veiku lífi en þeir þurfa að treysta á önnur lið í þeirri baráttu.

Fulham situr í átjánda sæti deildarinnar eftir leikinn, tveimur stigum frá öruggu sæti þegar þrír leikir eru eftir. Framundan eru sannkallaðir lykilleikir en liðið mætir Hull City, Stoke City og Crystal Palace í lokaleikjum tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×