Enski boltinn

Tottenham líklegast til að vinna Englandsmeistaratitilinn ef þeir vinna Chelsea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mun Mauricio Pochettino stýra Tottenham til Englandsmeistaratitils?
Mun Mauricio Pochettino stýra Tottenham til Englandsmeistaratitils? vísir/getty
Ef Tottenham vinnur Chelsea er Englandsmeistaratitillinn þeirra að tapa, segir Miguel Delany, íþróttafréttamaður hjá breska blaðinu Independent.

Tottenham taka á móti Englandsmeisturum Chelsea í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn fer fram á Wembley, sem er tímabundinn heimavöllur Tottenham á meðan þeir endurbyggja White Hart Lane.

Það hefur mikið verið í umræðunni í sumar hversu lítið Tottenham hafa gert á leikmannamarkaðinum, en hingað til hafa þeir ekki fengið til sín einn einasta leikmann. Þessi umræða virðist þó ekki hafa haft nein áhrif á liðið og sýndu þeir flotta frammistöðu í 0-2 sigrinum á Newcastle um síðustu helgi.

Chelsea hins vegar töpuðu óvænt í fyrsta leik gegn Burnley, og hafa stuðningsmenn þeirra miklar áhyggjur af ástandinu á Brúnni, sérstaklega ef þeir ná ekki að vinna Tottenham á morgun.

Ef Chelsea tapa leiknum í dag, þýðir það þá að Tottenham er orðið líklegast til þess að landa titlinum, spyr Delany í grein sinni. Þrátt fyrir að hafa minna fjármagn heldur en Chelsea og Manchester-liðin tvö þá hefur Tottenham veitt mesta keppni um Englandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár.

Helsta áhyggjuefni Tottenham, að mati Delany, er flutningurinn á Wembley. Heimavöllurinn var þeirra helsti kostur á síðasta tímabili, og mun það reynast erfitt að ná upp sama andrúmslofti á Wembley og var á White Hart Lane síðasta vetur.

Líklegast er of snemmt að segja til um hverjir muni hampa titlinum þegar aðeins einni umferð er lokið af ensku úrvalsdeildinni, en Tottenham geta hæglega verið í baráttunni. Grein Delany má lesa hér.

Leikur Tottenham og Chelsea verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 14:50.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×