Körfubolti

Tóti setti í túrbógírinn: „Hann var óaðfinnanlegur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnason, leikmaður KR í Domino´s-deild karla og einn allra besti ungi leikmaður landsins, fór á kostum fyrir Íslandsmeistarana þegar þeir pökkuðu ÍR saman, 95-73, í 18. umferð deildarinnar á sunnudagskvöldið.

Þórir, sem oftast er kallaður Tóti Túrbó, skoraði 20 stig á rétt rúmum 25 mínútum en hann hitti úr sjö af átta skotum sínum í teignum og stal að auki fjórum boltum af gestunum úr Breiðholtinu.

„Hann var bara óaðfinnanlegur, alveg frábær. Hann spilaði líka frábæra vörn og var að stela þar boltum,“ sagði Hermann Hauksson um Þóri í Dominos´-Körfuboltakvöldi á mánudagskvöldið.

„Þetta er alvöru leikmaður þessi drengur. Hann er alltaf að sýna það aftur og aftur,“ bætti Kristinn Friðriksson við um þennan 18 ára gamla bakvörð.

Tölfræðin sýnir að þessi ungi og bráðefnilegi leikmaður gerir bara góða hluti þegar hann fær að spila alvöru mínútur fyrir Íslandsmeistarana.

í þeim leikjum sem hann spilar 25 mínútur eða meira skorar hann 17 stig að meðaltali í leik, tekur 4,7 fráköst, gefur 3,1 stoðsendingu, stelur 3,4 boltum og er með 17,6 framlagsstig að meðaltali í leik. Þá er sigurhlutfall KR aðeins betra með Þóri inn á í 25 mínútur eða meira.

Þórir fékk stórt hlutverk í KR-liðinu á móti ÍR, bæði byrjunarliðssæti og fleiri mínútur, vegna meiðsla Brynjars Þórs Björnssonar.

„Maður er oft uppi í stúku alveg brjálaður yfir því hvað Þórir er lítið notaður en þetta er bara svo erfitt verkefni,“ sagði Hermann.

„Finnur treystir eldri mönnunum frekar en þeim ungu en í þessum leik breytir hann þessu aðeins og sýndi smá þróun á leik sínum með hraða og innáskiptingum. Það fór fyrst að bera á því í seinni hálfleik því ÍR-ingarnir voru mjög flottir í fyrri hálfleik,“ sagði Hermann Hauksson.

Alla umræðuna úr Domino´s-Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×