Fótbolti

Torres missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres, fyrrum leikmaður Liverpool og Chelsea, meiddist alvarlega í leik með Atlético Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Atlético Madrid gerði þá 1-1 jafntefli við Deportivo La Coruña þar sem Antoine Griezmann skoraði jöfnunarmarið á 68. mínútu eftir að heimamenn höfðu verið yfir frá þrettándu mínútu.

Fernando Torres kom inná sem varamaður á 65. mínútu eða þremur mínútum áður en Atlético-liðið jafnaði metin.

Torres kláraði hinsvegar ekki leikinn. Hann fékk slæmt höfuðhögg á 85. mínútu eftir að hafa farið upp í skallaeinvígi og datt beint á höfuðið að því virtist alveg meðvitundarlaus.

Liðsfélagar Fernando Torres stukku til hjálpar honum og höfðu greinilega miklar áhyggjur af Torres sem lá hreyfingarlaus. Það voru sterk viðbrögð þeirra sem ýttu undir það að þetta væri mjög alvarlegt.

Torres fékk síðan hjálp frá læknaliði Atlético Madrid og var fluttur á sjúkrahús.

Atlético Madrid gaf seinna frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að Fernando Torres væri komin á sjúkrahús og þar hafði komið í ljós hann hafi fengið heilahristing. Hann mun eyða nóttinni á sjúkrahúsinu þar sem verður fylgst vel með ástandi hans.

Liðsfélagar Fernando Torres hafa fengið góðar fréttir af honum og hann var kominn með meðvitund á sjúkrahúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×