Enski boltinn

Torres er ekki á förum frá Chelsea

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fernando Torres í æfingarleik Chelsea og Vitesse á dögunum.
Fernando Torres í æfingarleik Chelsea og Vitesse á dögunum. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea á Englandi, staðfesti í dag að Fernando Torres væri ekki á förum frá félaginu í sumar. Chelsea hefur þegar gengið frá kaupunum á Diego Costa og Didier Drogba í sumar.

Torres hefur ekki sýnt sitt rétta andlit allt frá því hann kom frá Liverpool árið 2011. Hjá Liverpool var hann eitraður sóknarmaður sem allir varnarmenn óttuðust en hann hefur aðeins skorað 20 mörk í 110 leikjum frá því að hann gekk til liðs við Chelsea fyrir 50 milljónir punda.

„Það er mikilvægt að vera með þrjá framherja í þínu liði og við erum með þrjá slíka í Didier, Diego og Fernando. Það fer enginn af þeim frá félaginu,“ sagði Mourinho við Sky Sports en ljóst er að Chelsea þarf að selja einn erlendan leikmann enda má liðið aðeins skrá 17 erlenda leikmenn.

„Ég er með fullkomið lið núna en staðreyndin er sú að ég þarf að selja einn leikmann en hver það verður er óvíst. Við viljum byggja liðið upp á enskum leikmönnum og það er markmið félagsins í framtíðinni til þess að lenda ekki í þessum vandræðum,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×