Körfubolti

Toronto jafnaði metin eftir framlengdan leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeMar DeRozan og DeMarre Carroll skoruðu samtals 41 stig fyrir Toronto.
DeMar DeRozan og DeMarre Carroll skoruðu samtals 41 stig fyrir Toronto. vísir/getty
Toronto Raptors jafnaði metin í einvíginu við Miami Heat í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA með fjögurra stiga sigri, 96-92, í öðrum leik liðanna í nótt. Staðan í rimmu liðanna er nú 1-1 en næstu tveir leikir fara fram í Miami.

Toronto leiddi mest með 14 stigum en var komið í erfiða stöðu um miðjan 4. leikhluta þegar Miami náði sjö stiga forskoti, 70-77.

Toronto-menn sýndu hins vegar styrk á lokakaflanum og Kyle Lowry kom liðinu í 86-83 þegar hann setti niður skot þegar tæpar 15 sekúndur voru eftir. Goran Dragic átti hins vegar síðasta orðið í venjulegum leiktíma þegar hann negldi niður þrist 10,5 sekúndum fyrir leikslok og því þurfti að framlengja.

Toronto skoraði sex fyrstu stigin í framlengingunni og þá var ekki aftur snúið. Miami var í vandræðum í sókninni og heimamenn lönduðu fjögurra stiga sigri, 96-92.

DeMarre Carroll var stigahæstur í liði Toronto með 21 stig en DeMar DeRozan kom næstur með 20 stig. Lowry gerði 18 stig og þá skilaði litháíski miðherjinn Jonas Valanciunas 15 stigum og 12 fráköstum.

Dragic skoraði 20 stig fyrir Miami og þeir Joe Johnson og Dwayne Wade sitt hvor 17 stigin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×