Körfubolti

Tony Parker og félagar bíða strákanna okkar á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar fá verðugt verkefni á EM á næsta ári.
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar fá verðugt verkefni á EM á næsta ári. Vísir/Getty
Ísland lenti í afar erfiðum riðli á EM í körfubolta á næsta ári en dregið var í riðla í Istanbúl í dag.

Ísland er í A-riðli með Póllandi, Grikklandi, Frakklandi, Finnlandi og Slóveníu. Riðill Íslands verður leikinn í Finnlandi.

Íslenska liðið lenti í sannkölluðum dauðariðli á EM 2015 og riðilinn á EM á næsta ári er álíka erfiður.

Frakkar hafa á gríðarlega sterku liði að skipa en þeir urðu Evrópumeistar 2013. Á síðasta EM endaði franska liðið í 3. sæti. Meðal þekktra leikmanna í franska liðinu má nefna Tony Parker, leikstjórnanda San Antonio Spurs, Utah-mennina Rudy Gobert og Boris Diaw og Nicolas Batum sem leikur með Charlotte Hornets.

Grikkir urðu í 5. sæti á síðasta EM. Þeir hafa tvisvar sinnum orðið Evrópumeistarar (1987 og 2005). Þekktasti leikmaður gríska liðsins er hinn afar fjölhæfi Giannis Antetokounmpo sem leikur með Milwaukee Bucks í NBA-deildinni.

Frakkar, Grikkir og Finnar fóru beint á EM; Frakkland og Grikkland vegna árangursins á síðasta EM og Finnland sem eitt fjögurra landa sem heldur mótið.

Slóvenar unnu alla sex leiki sína í undankeppninni og Pólverjar unnu fimm af sex leikjum sínum.

Riðilarnir á EM 2017:

A-riðill: Pólland, Frakkland, Grikkland, Finnland (gestgjafi), Ísland, Slóvenía

B-riðill: Úkraína, Ísrael (gestgjafi), Litháen, Georgía, Ítalía, Þýskaland

C-riðill: Króatía, Tékkland, Spánn, Svartfjallaland, Rúmenía (gestgjafi), Ungverjaland

D-riðill: Bretland, Rússland, Serbía, Lettland, Tyrkland (gestgjafi), Belgía

EM hefst 31. ágúst og lýkur með úrslitaleik í Istanbúl 17. september. Útsláttarkeppnin í heild sinni verður leikin í Istanbúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×