Erlent

Tómur misskilningur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frá blaðamannafundinum í sendiráði Ekvadors í London í morgun.
Frá blaðamannafundinum í sendiráði Ekvadors í London í morgun. Vísir/AP
„Þetta var nú allt saman hálfgerður misskilningur,“ segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, um fréttir þess efnis að Julian Assange sé farinn að hugsa sér til hreyfings á næstunni.

„Hann var að svara spurningum sem sneru að einhverjum orðrómi sem komst á flot í gærkvöldi og nótt að hann ætlaði að gefa sig fram við lögreglu í dag. Það var enginn fótur fyrir því,“ segir Kristinn.

Sjálfur hafi Kristinn svo fengið spurningar snemma í gærmorgun um það, hvort Assange væri tilbúinn til þess að yfirgefa sendiráðið.

„Ég gat ekki svarað öðru vísi en þannig að hann væri auðvitað tilbúinn til þess hvenær sem er, og það helst sem fyrst. En það getur náttúrlega ekki gerst nema að breyttum forsendum, þannig að Bretar fari að virða það hæli sem búið er að veita Julian í samræmi við alþjóðasamninga.“

Tilefni blaðamannafundarins með Julian Assange, sem haldinn var í sendiráði Ekvadors í London í gærmorgun, hafi fyrst og fremst verið það að tvö ár voru um helgina liðin síðan Ekvador veitti Assange hæli. Ricardo Patino, utanríkisráðherra Ekvadors, hafi verið staddur í London og því tekið þátt í fundinum til að ítreka stuðing Ekvadors við Assange.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×