Innlent

Tómlæti yfirvalda sést í fækkun sjúkrarúma

Svavar Hávarðsson skrifar
Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins Vogs.
Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins Vogs.
Heilbrigðisyfirvöld hafa fækkað sjúkrarúmum fyrir meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga úr 265 þegar mest var í lok árs 1985 í 62 rúm í lok árs 2014. SÁÁ og geðdeild Landspítalans hafa reynt að vega upp þessa fækkun sjúkrarúma með dagdeildarþjónustu, en viðbúnaðurinn hefur engu að síður minnkað stórum.

Kostnaður vegna vímuefnavandans hefur færst frá ríkinu yfir á sveitarfélög, einstaklinga og almannasamtök.

Þetta kemur fram í nýútgefnu ársriti meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Ein af grunnniðurstöðum höfundarins, Þórarins Tyrfingssonar forstjóra Sjúkrahússins Vogs, er að ef litið er til þess hversu margir greinast áfengis- og vímuefnasjúkir, og hversu alvarlegur og afdrifaríkur sjúkdómurinn er, megi fullyrða að sjúkdómurinn sé sá alvarlegasti sem Íslendingar glíma við um þessar mundir.

Þegar viðbúnaður heilbrigðisyfirvalda vegna sjúklingahópsins er mældur í sjúkrarúmum, að fullu greiddum af ríkinu, sést að þeim hefur fækkað jafnt og þétt á rúmlega þriggja áratuga tímabili [heildarframlög til SÁÁ eru 850 milljónir á fjárlögum]. Voru 265 árið 1984 þegar Íslendingar voru 151.000 á aldursbilinu 15 til 64 ára en 62 árið 2015 þegar í aldurshópnum voru 217.500 manns.

Þórarinn segir að með aðgerðum stjórnvalda hafi dregið verulega úr meðferðarþjónustu og tiltekur ártalið 2000 sérstaklega vegna þess að „flest bendir til þess að umfang og kostnaður vandans hafi á sama tíma aukist“.

Hann telur það vafamál hvort Íslendingar haldi sérstöðu sinni hvað varðar áherslu á áfengis- og vímuefnameðferð, ef litið er til annarra þjóða og framtíðarinnar.

Áhyggjuefnið er mun minni þátttaka Landspítala og annarra meðferðarstofnana í áfengis- og vímuefnameðferðinni.

Þórarinn segir að SÁÁ hafi reynt að halda úti óbreyttri þjónustu á eigin kostnað sem nemur um 250 milljónum árlega. Það sé gert með því að breyta ætluðum dagdeildum af hálfu heilbrigðisráðuneytisins á Vík og Staðarfelli í innlögn á sjúkrastofnun. Þannig hefur sjúkrarúmum á Vogi verið fjölgað úr 42 í 60.

Í samtali við Fréttablaðið segir Þórarinn að í fækkun sjúkrarúma sem eru að fullu greidd af heilbrigðisyfirvöldum, úr 265 í rúmlega 60, megi sjá eina birtingarmynd þeirrar gríðarlegu færslu sem orðið hefur á umönnun frá ríkinu til sveitarfélaga – og nefnir fatlaða og aldraða.

„Þarna er ein tilfærslan til viðbótar alveg sláandi, nú er þessu fólki vísað á sveitarfélögin og það er ekkert að ástæðulausu sem vex svona kostnaður Reykjavíkurborgar vegna þessa vanda í félagsþjónustu og ýmsum búsetuúrræðum sem þeir halda upp, svo dæmi sé tekið,“ segir Þórarinn.

Aðspurður hvað liggi hér að baki segir Þórarinn að málið sé hápóli­tískt, og spurningum um úrræði sé oftast mætt með fullkomnu tómlæti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×