Menning

Tölvurnar unnu stanslaust í heilt ár með tónana

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ég hef mestan áhuga á strengjakvartettinum og mestar áhyggjur líka en veit að þær eru óþarfar því flytjendurnir eru snillingar,” segir Þorsteinn.
„Ég hef mestan áhuga á strengjakvartettinum og mestar áhyggjur líka en veit að þær eru óþarfar því flytjendurnir eru snillingar,” segir Þorsteinn. Vísir/Stefán
Ég lauk við strengjakvartett á síðasta ári og hafði samband við Caputhópinn sem hefur mörgum frábærum hljóðfæraleikurum á að skipa. Þar var stungið upp á að efna til svokallaðra portrett tónleika sem gæfi heildarmynd af því sem ég hef verið að bralla gegnum tíðina. Það þýðir að nær eingöngu verða flutt verk úr minni smiðju í Norræna húsinu á morgun,“ segir Þorsteinn Hauksson sem á yfir 40 ára sögu að baki sem tónskáld og er enn á góðri siglingu. Það sannar hinn glænýi Strengjakvartett eitt, sem er sá fyrsti sem hann skrifar eingöngu fyrir strengi.

Þorsteinn er meðal annars þekktur fyrir tölvutónlist sína.

„Þegar humynd kom upp um að hafa gamalt rafverk með, tók ég því fálega fyrst, tækninni fleygir svo fram og tölvuverk eru oft dæmd af hljóðinu en ekki tónsmíðinni sjálfri. Svo fór ég að hlusta á tíu mínútna verk frá 1988 sem er líklega það fyrsta sem samið var á Íslandi með tölvu. Áður hafði verið samið fullt af tölvuverkum í stórum stúdíóum, en hér á landi var enginn búnaður til slíks.

Ég keypti mér Atari tölvu en hún réði ekki neitt við neitt. Þá keypti ég mér aðra og lét báðar tölvurnar reikna stanslaust í heilt ár, oft voru þær heitar þegar mest gekk á. Verkinu var lokið árið 1988, það var líklega frumflutt í Norræna húsinu sama ár og svo flutt á tónlistar-og tölvuhátíðum víða um heim í framhaldinu. Ég held það sé bara sniðugt að leyfa fólki að heyra það aftur.“

Þorsteinn kveðst líka hafa verið beðinn að nefna áhrifavald á líf sitt og valið Karlsheinz Stochausen. Á tónleikunum verður því frumflutt á Íslandi verk eftir Stockhausen frá 1955.

„Þetta var fyrsta rafverkið sem ég heyrði í útvarpinu, þá tíu ára gamall, það bara breytti lífi mínu. Litlu eyrun blöktu,“ rifjar Þorsteinn upp og kveðst, aðspurður, hafa átt heima þá á Bjarnhólastígnum í Kópavogi.

Það leiðir hugann að búsetu Þorsteins, sem hefur verið að mestu utan landssteinanna síðustu ár. „Ég hef alla tíð verið með annan fótinn erlendis og frá 2000 búið þar með Steinunni Sigurðardóttur rithöfundi, mest í Frakklandi, fyrst í París, svo í Suður-Frakklandi. Síðan vorum við í Berlín í nokkur ár en erum svotil nýflutt til Frakklands aftur, til Strassborgar sem er á mörkum margra heima. 

Strassborg er í elsta matar-og léttvínsfylki Frakklands og þar eru margar stórar og skemmtilegar borgir rétt hjá.“

Efnisskrá og miðaverð:

l Sextett fyrir flautu, óbó, klarinettu, fiðlu, selló og kontrabassa (2000)

l Bells of Earth I fyrir carillon, slagverk og tölvuhljóð (1994)

l Psychomachia fyrir sópran og selló (1987)

l Cho fyrir flautu og tölvuhljóð (1992)

l Karlheinz Stockhausen: Gesang der Jünglinge – Rafverk (1955)

l Strengjakvartett eitt (2015 – frumflutningur)

l Miðaverð er 2.000 kr. og 1.000 kr. fyrir öryrkja, eldri borgara og nemendur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×