Innlent

Tölvurnar duttu út meðan á próftíma stóð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Um fjögur þúsund nemendur þreyttu rafrænt samræmt könnunarpróf í morgun.
Um fjögur þúsund nemendur þreyttu rafrænt samræmt könnunarpróf í morgun. VÍSIR/VILHELM
Allar tölvur í einum grunnskóla duttu út á sama tíma þegar fjórðu bekkingar hugðust þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku. Um var að ræða bilun hjá þjónustuaðila vef- og símakerfis skólans og þurfti að gera hlé á próftöku um tíma. Vandamálið var að lokum leyst með því að láta unglingadeild hætta að nota internetið á meðan próftíma stóð.

Þá kom upp vandamál í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði í síðustu viku þegar nemendur duttu ítrekað út úr prófinu og þurftu sumir nemendur að skrá sig inn allt að tuttugu sinnum. Starfsfólki skólans tókst þó að lokum að leysa vandann með því að búa til sína eigin internet-tengingu, með því að tengjast netinu í gegnum farsíma nemenda og starfsfólks.

Hjá sjöundu bekkingum voru broddstafir til vandræða. Á síðu Menntamálastofnunar segir að ástæðan hafi verið nýleg uppfærsla á Veflás. Tillaga að lausn sé komin frá erlendum samstarfsaðila en metur stofnunin það sem svo að of skammur tími hafi verið til stefnu til að prófa nýja lausn. Hún geti mögulega haft í för með sér önnur vandamál. Fyrirlögn fyrir fjórðu bekkinga var því með sama sniði og að sögn stofnunarinnar verður fullt tillit tekið til þes í yfirferð og nemendur látnir njóta alls vafa.  

Að öðru leyti hafi önnur vandamál verið smávægileg og leyst jafnóðum. Það alvarlegasta hafi verið bilun hjá þjónustuaðila.

„Engar ábendingar bárust til Menntamálastofnunar um að notkun lyklaborða hafi vafist fyrir nemendum eða að broddstafir hafi truflað í ritunarhluta. Menntamálastofnun mun senda út könnun til skólastjórnenda og umsjónarmanna fyrirlagnar á samræmdum prófum að lokinni próftöku í íslensku og stærðfræði til að fá örugga yfirsýn yfir hvernig til tókst. Menntamálastofnun þakkar nemendum, foreldrum og kennurum fyrir frábært samstarf og vel heppnaða fyrirlögn,“ segir á síðu Menntamálastofnunar.


Tengdar fréttir

Börn þurfa að læra fingrasetningu í snatri

Samræmd próf í íslensku fyrir fjórða bekk grunnskólanna verða tekin á tölvur þrátt fyrir að fingrasetning hafi ekki verið kennd markvisst. Prófið veldur foreldrum og kennurum áhyggjum og hafa skólar þurft að fá lánaðar tölvur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×