Erlent

Tölvugeirinn sleginn vegna sviplegs andláts frumkvöðuls

Birgir Olgeirsson skrifar
Dave Goldberg ásamt eiginkonu sinni Sheryl Sandberg.
Dave Goldberg ásamt eiginkonu sinni Sheryl Sandberg. Vísir/EPA
Framkvæmdastjóri SurveyMonkey, Dave Goldberg, er látinn 47 ára að aldri. Andlát hans bar brátt að að sögn fjölskyldu hans en hann var eiginmaður Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóra hjá Facebook.

Goldberg starfaði áður hjá Yahoo áður en hann gekk til liðs við SurveyMonkey árið 2009. Við tók mikill uppgangur hjá fyrirtækinu sem er nú metið á tvo milljarða dollara. Undir stjórn Goldbergs fór SurveyMonkey úr því að vera fámennur vinnustaður yfir í að skaffa 450 manns atvinnu sem þjónustaði 25 milljónir viðskiptavina.

Stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, minntist Goldbergs eftir að hafa fengið fregnir af andláti hans og lýsti honum sem stórfenglegri manneskju.

Það var bróðir Goldbergs, Robert, sem tilkynnti um andlát hans á Facebook. „Það hryggir mig mjög að færa vinum mínum og fjölskyldu þær fréttir að bróðir minn, Dave Goldberg, féll frá síðastliðna nótt,“ skrifaði Robert en Goldberg lætur eftir sig tvö börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×