Innlent

Töluvert ónæði vegna framkvæmda

Freyr Bjarnason skrifar
Suðurhlið landspítalans í fossvogi. Framkvæmdirnar kosta 150 milljónir króna.
Suðurhlið landspítalans í fossvogi. Framkvæmdirnar kosta 150 milljónir króna. Fréttablaðið/Arnþór
Tvö hundruð milljóna utanhússframkvæmdir á húsnæði Landspítalans hafa gengið vel síðan þær hófust í síðasta mánuði. Ónæðið sem hefur hlotist af þeim hefur engu að síður verið þó nokkuð.

„Þetta gengur ágætlega en þetta er rask fyrir sjúklinga og starfsmenn. Við reynum að nýta sumarmánuðina vel þegar starfsemin er í lágmarki,“ segir Aðalsteinn Pálsson, deildarstjóri fasteignadeildar Landspítalans, aðspurður. „Þetta er ónæði en það eru allir tilbúnir að leggja á sig í trú um að þetta verði betra á eftir.“

Um gluggaskipti og steypuviðgerðir er að ræða en leki í gluggum og mygla hefur verið vandamál hjá Landspítalanum. Verið er að taka í gegn suðurhlið spítalans í Fossvogi, vestursvæðið við Hringbraut og vesturálmuna á Landakoti. Framkvæmd suðurhliðarinnar kostar 150 milljónir króna, vestursvæðisins 50 milljónir og vesturálmunnar sömuleiðis.

Að sögn Aðalsteins er vonast til að framkvæmdunum ljúki í september og október. „Þá er starfsemin komin á fullt. En þetta eru bara áfangar. Það þarf að halda síðan áfram á öllum stöðunum og við vonumst til að fá fjárveitingar til þess. Það er brýn þörf á því að fara í þessar aðgerðir til að stöðva leka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×