Lífið

Tólfunni skúbbað úr skaupinu

Jakob Bjarnar skrifar
Tólfan beið án árangurs eftir að sjá sig í Skaupinu; en ... ekki er öll nótt úti enn; hugsanlega mun atriðið bera fyrir augu landsmanna þó með öðrum hætti sé.
Tólfan beið án árangurs eftir að sjá sig í Skaupinu; en ... ekki er öll nótt úti enn; hugsanlega mun atriðið bera fyrir augu landsmanna þó með öðrum hætti sé.
Liðsmenn Tólfunnar urðu margir hverjir svekktir eftir að sýningu Áramótaskaupsins lauk. Þeir höfðu búist við því að vera áberandi í Skaupinu en þegar til kom glitti ekki svo mikið sem í þennan káta félagsskap sem var svo áberandi á árinu sem skeleggur stuðningshópur íslenska landsliðsins.

Svekktir Tólfumenn

Jóhann D Bianco aka Joe Drummer, einn helsti liðsmaður Tólfunnar, er verulega svekktur með þessa niðurstöðu. Joe Drummer segir að mikið hafi verið í þetta lagt, Laugaveginum hafi verið lokað, útisvið við Ingólfstorg, hann bara skilur ekki að þetta hafi verið klippt út, í ljósi þess hversu mikið var í þetta lagt.

Formaður Tólfunnar, Benjamín Hallbjörnsson eða Benni bongó, tekur í sama streng. Hann sjálfur eyddi þvílíkum tíma í að smala mannskap í þetta og atriðið hafi tekið talsvert langan tíma í tökum. Hann segir það hundfúlt að bíða þess að birtast á skjánum og svo ekki neitt.

Benni bongó taldi ekki ástæðu til að gera of mikið úr málinu en hann hafi ekki fengið neinar skýringar á því hvers vegna atriðið var klipp út og því lítið fyrir Vísi að gera annað en hringja beint í foringjann, Kristófer Dignus leikstjóra. Kristófer er að vonum með böggum hildar vegna þessa; segir Tólfuna hóp sem enginn vilji svekkja. Þetta var eitt stærsta atriðið sem tekið var upp í Skaupinu en því miður þá reyndist það of langt þegar til kom, og féll þannig ekki að heildarmyndinni. „Við urðum að skera niður,“ segir Kristófer og greinilegt er að hann dauðsér eftir atriðinu.

Sigmundur Davíð í essinu sínu

Fjölmargir léku í þessu en í atriðinu segir af fögnuði sem greip um sig eftir jafntefli við Kasaka en þá lá fyrir að Ísland væri komið á EM. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var manna kátastur og gaf út yfirlýsingu þess efnis að allir barir væru opnir í tilefni dagsins, en þegar til kastanna kom var gestum vínveitingastaða vísað út. Í atriðinu fer Sigmundur Davíð vígreifur fyrir Tólfunni, lýsir því yfir að þessi staður verði opinn og hinn. „Og Pravda ...“ þá er honum bent á að Pravda sé ekki lengur til, þá lýsir Sigmundur Davíð því yfir að það verði bara byggt nýtt Pravda. Svo týnist Sigmundur Davíð en áhorfendur sjá skot af forsætisráðherra þar sem hann er í felum í 10/11 að borða köku.

„Kolbeinn Sigþórsson kom og lék, Gói, Steindi, Atli Fannar, öll Tólfan og að sjálfsögðu Hannes Óli í hlutverki Sigmundar Davíðs,“ segir Kristófer Dignus og ljóst að hann dauðsér eftir atriðinu. Og hann gengur svo langt, í samtali við blaðamann Vísis, að gefa til kynna að hugsanlega muni þetta atriði koma fram þó með öðrum hætti sé en upphaflega var ætlað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×