Innlent

Tólfunni flogið til Lúxemborgar til að taka Víkingaklappið á jólagleði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sex meðlimum Tólfunnar, stuðningsveitar íslensku landsliðanna í knattspyrnu, var sérstaklega flogið út til Lúxemborgar á vegum endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young til að taka Víkingaklappið fræga á jólagleði fyrirtækisins.

„Það var haft samband við okkur og við beðnir um að safna saman þremur trommurum og þremur fylgisveinum,“ segir Friðgeir Bergsteinsson, einn af þeim sem fóru út fyrir hönd Tólfunnar.

Vísir náði í skottið á honum rétt áður en Tólfumeðlimirnir flugu heim frá Lúxembúrg en ferðin var stutt, þeir fóru út í gær.

„Það var ráðstefna hjá þeim fyrr um daginn og þetta var svona pepp fyrir jólagleðina,“ segir Friðgeir en það eina sem þeir þurftu að gera var að taka Víkingaklappið fræga þrisvar sinnum. Friðgeir segir að klappið hafi slegið í gegn líkt og sjá má meðfylgjandi myndbandi.

„Við fórum upp á svið og Joey Drummer og Benni Bongó gerðu sitt Það var svaka stemmning í fólkinu og við vorum að peppa fólkið.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Tólfumeðlimirnir taka að sér eitthvað á borð við þetta og var ferðin ekki af lakari taginu en Friðgeir segir að afar vel hafi verið tekið á móti þeim félögum.

Það er mikið um að vera hjá Tólfunni þessa dagana en tilkynnt var í gær að Tólfan og stuðningsmenn Íslands á EM í Frakklandi í sumar hafi verið tilnefndir sem stuðningsmenn ársins af FIFA.

„Við fréttum það bara í gær og viljum endilega að fólk kjósi okkur,“ segir Friðgeir en hægt er að greiða atkvæði hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×