Fótbolti

Tölfræði úr bronsleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robin van Persie og David Luiz takast í hendur eftir leikinn í kvöld.
Robin van Persie og David Luiz takast í hendur eftir leikinn í kvöld. Vísir/Getty
Nokkrir tölfræðimolar úr leik Hollands og Brasilíu:

  • Holland varð fyrsta liðið í sögu HM til að nota alla 23 leikmennina í leikmannahópnum. Metið féll þegar markvörðurinn Michel Vorm kom inná sem varamaðurinn fyrir Jasper Cillesen í uppbótartíma í leiknum í kvöld.
  • Cillesen varð fyrsti markvörðurinn til að vera skipt tvisvar af velli á HM, en hann var tekinn út af í leiknum í kvöld og í leiknum gegn Kosta Ríka í átta-liða úrslitunum þegar hann vék fyrir Tim Krul.
  • Holland varð sjötta liðið til að nota alla þrjá markverðina í leikmannahópnum á einu HM. Áður höfðu Frakkland (1978), Belgía (1982), Tékkóslóvakía (1982), Grikkland (1994) og Portúgal (2014) gert slíkt hið sama.
  • Robin van Persie er nú næstmarkahæsti leikmaður Hollands á HM ásamt Arjen Robben, Wesley Sneijder, Rob Rensenbrink og Dennis Bergkamp en þeir hafa allir skorað sex mörk á HM. Þá þrjá fyrstnefndu vantar því aðeins eitt mark til að ná Johnny Rep sem skoraði sjö mörk á HM 1974 og 1978.
  • Ellefu af þeim 15 mörkum sem Holland skoraði á HM komu í seinni hálfleikjum leikjanna. Fimm þeirra voru skoruð á síðasta stundarfjórðungi leikjanna.
  • Brasilía fékk á sig 14 mörk á HM 2014, en liðið hefur aldrei fengið á sig jafn mörg mörk á HM. Áður hafði Brasilía mest fengið á sig 11 mörk, á HM í Frakklandi 1938.
  • Níu af þeim 14 mörkum sem Brasilía fékk á sig á HM komu á fyrstu 30 mínútum leikjanna.
  • Brasilía tapaði tveimur síðustu leikjum sínum með markatölunni 1-10.
  • Markið sem van Persie skoraði var 100. markið sem Brasilía fær á sig á HM frá upphafi. Jugóslavinn Aleksandar Tirnanić skoraði fyrsta markið sem Brasilía fékk á sig á HM, árið 1930.
  • Gula spjaldið sem Brasilíumaðurinn Oscar fékk fyrir að reyna að fiska vítaspyrnu í seinni hálfleik var fyrsta gula spjaldið sem er gefið fyrir leikaraskap á HM í Brasilíu.
  • Fyrir leikinn hafði Brasilía ekki tapað tveimur leikjum í röð á heimavelli frá árinu 1940, þegar liðið tapaði 0-3 fyrir Argentínu og 3-4 fyrir Úrúgvæ.
  • Þetta var annað sinn sem gestgjafar tapa leiknum um bronsið. Það gerðist fyrst árið 2002 þegar S-Kórea tapaði 3-2 fyrir Tyrklandi í bronsleiknum.
  • Þetta var 10. bronsleikurinn í röð þar sem skoruð voru þrjú eða fleiri mörk.
  • Nú hafa 170 mörk verið skoruð á HM og það vantar því aðeins eitt mark til að jafna metið frá 1998, en þá var skorað 171 mark.

Tengdar fréttir

Van Gaal: Viljum snúa taplausir heim

Holland og Brasilía mætast í kvöld í leiknum um bronsið á HM í fótbolta. Brasilíumenn brolentu eins og frægt er orðið gegn Þjóðverjum, en Hollendingar féllu úr leik gegn Argentínumönnum eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni.

Scolari hefur skilað góðu starfi

Þrátt fyrir afhroðið sem brasilíska landsliðið beið gegn því þýska í undanúrslitum HM í knattspyrnu á þriðjudaginn hefur verðandi forseti brasilíska knattspyrnusambandsins lýst yfir stuðningi við Luiz Felipe Scolari, þjálfara liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×