Fótbolti

Tólf sæta stökk strákanna okkar á FIFA-listanum staðfest

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/EPA
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 22. sæti á nýjasta FIFA-listanum sem var formlega gefinn út í morgun en Ísland hefur aldrei verið ofar á heimslista karlafótboltans.

Vísir sagði frá þessu stóra stökki strákanna okkar strax á mánudaginn þar sem farið var eftir áreiðanlegu útreikninum spænska tölfræðingsins Alexis Martín-Tamayo.

Gamla metið var 23. sæti sem liðið hefur þrisvar komist í áður eða í júlí, september og október 2015.

Íslenska liðið hoppar upp um tólf sæti þökk sé frábærum árangri liðsins á Evrópumótinu í Frakklandi þar sem strákarnir okkar komust alla leið í átta liða úrslitin.

Íslands vann bæði Austurríki og England á EM í Frakklandi en báðar þjóðirnar eru enn fyrir ofan Ísland á listanum þótt að Austurríkismenn falli niður um ellefu sæti og sitji nú í næsta sæti fyrir ofan Ísland.

Íslenska liðið fékk 1692.9 stig fyrir sigurinn á Austurríki og 1683.99 fyrir sigurinn á Englandi en í samanburði fékk Ísland aðeins 148.5 stig fyrir sigurinn á Liechtenstein.

Meðal þjóða sem Ísland fór upp fyrir eru Slóvakía, Rúmenía, Bandaríkin, Holland, Kosta Ríka, Norður-Írland, Bosnía, Úkraína og Írland.

Ísland er nú langefst af Norðurlandaþjóðunum en næstir koma Svíar í 40. sæti eða 18 sætum neðar en Ísland. Danir eru síðan í 44. sætinu.

Argentína er áfram í efsta sæti FIFA-listans og fimm efstu sætin breytast ekkert. Næst koma því Belgía, Kólumbía, Þýskaland og Síle. Nýkrýndir Evrópumeistarar Portúgals fara upp um tvö sæti og upp í sjötta sæti. Frakkar eru í sjöunda sæti en þeir hækkuðu sig um heil tíu sæti.

Spánn og Brasilía detta næði niður um tvö sæti en eru þó áfram inn á topp tíu. Ítalir eru í tíunda sætinu en í næsta sæti fyrir neðan er Wales sem hækkar sig um fimmtán sæti og fer upp í 11. sæti.

Króatar (upp um 12. sæti í 15. sætið) og Pólverjar (upp um 11. sæti í 16. sætið) hækka sig líka mikið á þessum nýjasta lista en hér fyrir neðan má sjá 50 efstu sætin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×