Handbolti

Tólf íslensk mörk í sigri Löwen

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson reyndist drjúgur á lokasprettinum í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson reyndist drjúgur á lokasprettinum í dag. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson stóðu fyrir sínu í 34-30 sigri Rhein Neckar-Löwen á Rúnari Kárasyni og félögum í Hannover-Burgdorf í þýsku deildinni í dag.

Var þetta níundi sigur Löwen í röð en með sigrinum saxaði Löwen á Kiel og Flensburg á toppi deildarinnar. Löwen á enn leik til góða og getur komist upp að hlið þeirra með sigri í þeim leik.

Guðjón Valur reyndist drjúgur á lokamínútunum en þrjú af sjö mörkum hans komu á seinustu fimm mínútunum en Alexander bætti við fimm mörkum. Rúnar komst ekki á blað hjá Hannover sem var búið að vinna fjóra leiki í röð fyrir leik dagsins.

Bergischer með Björgvin Pál Gústavsson innanborðs þurfti að sætta sig við tap á útivelli 28-26 gegn Coburg 2000 en eftir að hafa leitt framan af voru heimamenn í Coburg sterkari á lokasprettinum.

Þá tókst Vigni Svavarssyni ekki að koma í veg fyrir fimm marka tap Holstebro gegn Nantes í Meistaradeildinni í dag en Vignir var markahæstur í danska liðinu með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×