Innlent

Töldu að um málamyndahjónaband væri að ræða

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu íslenskrar konu og erlends eiginmanns hennar um að úrskurður kærunefndar útlendingamála að vísa ætti manninum úr landi yrði ógiltur með dómi.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu íslenskrar konu og erlends eiginmanns hennar um að úrskurður kærunefndar útlendingamála að vísa ætti manninum úr landi yrði ógiltur með dómi. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu íslenskrar konu og erlends eiginmanns hennar um að úrskurður kærunefndar útlendingamála að vísa ætti manninum úr landi yrði ógiltur með dómi.

Í dómnum kemur fram að hjónin hafi kynnst á spjallvef i ágúst árið 2013. Maðurinn hafi komið til landsins í desember 2013 frá Ítalíu, þar sem hann hafði dvalarleyfi. Konan hafði þá sótt um skilnað frá fyrrum eiginmanni sínum sem er ríkisborgari sama lands. Þau bjuggu þó saman um nokkurt skeið eftir komu mannsins til landsins. Þau gengu svo í hjónaband þann 30. janúar árið 2014 og daginn eftir sótti maðurinn um dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings.

Útlendingastofnun tók viðtal við hjónin dagana 26. og 28. ágúst 2014. Í bréfi þann 26. september 2014 var manninum tilkynnt að Útlendingastofnun grunaði að hjónaband þeirra væri til málamynda og var honum veittur 15 daga frestur til að leggja fram gögn eða andmæla því sem fram kom í bréfi stofnunarinnar. Lögmaður mannsins skilaði greinagerð þar sem grun Útlendingastofnunar um málamyndahjúskap var andmælt.

Útlendingastofnun synjaði manninum um dvalarleyfi hér á landi þann 3. desember 2014. Vísað var til þess að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að stofnað hefði verið til hjúskapar stefnenda til málamynda og í þeim eina tilgangi að afla manninum dvalarleyfi. Maðurinn kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins 11. desember 2014.

Úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp þann 12. mars 2015, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja manninum um útgáfu dvalarleyfis.

Gátu ekki greint frá atriðum sem makar ættu að þekkja

Í apríl sama ár var manninum tilkynnt að hann mætti eiga von á brottvísun og endurkomubanni til Íslands, þar sem hann dveldi ólöglega hér á landi. Honum var þó gefinn kostur á að yfirgefa sjálfur landið.

Í dómi héraðsdóms segir að í viðtali við Útlendingastofnun þann 24. ágúst 2014 hafi hjónin hvorugt getað greint skilmerkilega frá atriðum sem eðlilegt geti talist að makar geti greint frá og þekkt úr lífi hvors annars, meðal annars eftirnöfnum hvors annars, fæðingardögum, hve lengi þau hafi verið að hittast áður en þau gengu í hjúskap, nöfnum barna maka og öðrum atriðum. 

Þá segir einnig að þrátt fyrir fullyrðingar í stefnu um tengsl mannsins við ættingja, kunningja og vini konunnar, sem og eigin kunningja hér á landi, og menningarleg tengsl hans við landið, hafi hann ekki leitast við að sýna fram á þau tengsl með gögnum eða frekari vitnaleiðslum.

Hjónin kröfðust þess að dómurinn ógilti alla úrskurði kærunefndar útlendingamála um að manninum skyldi vísað úr landi. Héraðsdómurinn sýknaði ríkið af kröfu hjónanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×