Skoðun

Tökum til í Hafnarfirði

Ingi Tómasson skrifar
Snyrtilegt umhverfi hefur mikil áhrif á líðan okkar allra og ætti góð umgengni og umhverfisvitund að vera sjálfgefinn hlutur. En svo er því miður ekki. Í Hafnarfirði hefur á liðnum árum nokkrum sinnum verið hrint af stað hreinsunarátaki og hafa þannig um 200 tonn af rusli verið hirt, einkum af lóðum fyrirtækja. Vissulega eru flestir íbúar og mörg fyrirtæki til fyrirmyndar þegar kemur að frágangi á lóðum og umgengni, en því miður eru allt of mörg fyrirtæki sem þurfa að taka sig verulega á í þeim efnum.

Sama má segja um umgengni í upplandinu, náttúrunni sem okkur er svo annt um. Víða má sjá rusl í miklum mæli sem fólk losar sig við úti í náttúrunni í stað þess að nýta þjónustu Sorpu eða Gámaþjónustunnar. Nú verður ekki lengur horft framhjá slæmri umgengni á lóðum í Hafnarfirði og því samþykkti skipulags- og byggingarráð nýlega að bærinn færi í nýtt átak í hreinsun iðnaðar-, íbúða- og nýbyggingarsvæða. Og að þessu sinni verður settur meiri kraftur í verkið en áður. Hreinsunarátakið hefst 22. september og stendur yfir í tvo mánuði.

Markmið átaksins

…er að koma bænum í það horf að við getum labbað um án þess að sjá rusl, bílhræ eða annan ósóma á víðavangi, við fyrirtæki eða á íbúðahúsalóðum. Til þess að þetta takist þurfum við íbúar, Hafnarfjarðarbær svo og forsvarsmenn fyrirtækja að taka okkur á og bæta umhverfisvitund samfélagsins með öllum tiltækum ráðum þannig að engum komi til hugar að líta fram hjá slæmri umgengni í bænum okkar.

Ávinningur

…okkar sem samfélags af því að vera í fremstu röð umhverfislega séð er augljós. Mikilvægt er fyrir uppbyggingu atvinnulífs hér sem annars staðar að umhverfið sé snyrtilegt og umgengni góð. Snyrtilegt umhverfi bætir ímynd bæjarins, íbúum líður betur og bærinn verður eftirsóknarverðari valkostur fyrir rekstraraðila, fjölskyldur og einstaklinga. Hafnfirðingar, starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar og rekstraraðilar, tökum höndum saman og setjum umhverfismál í forgang. Nánar um hreinsunarátakið á www.hafnarfjordur.is




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×