Erlent

Tóku fjóra bæi af YPG í Afrin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sýrlenskir uppreisnarmenn eru Tyrkjum til halds og trausts.
Sýrlenskir uppreisnarmenn eru Tyrkjum til halds og trausts. vísir/afp
Tyrkneski herinn tók í gær bæina Shankal, Qorne, Bali og Adah Manli auk nokkurra dreifbýlissvæða í Afrin-héraði í norðvesturhluta Sýrlands. Frá þessu greindi Anadolu-fréttastofan í gær en Tyrkir réðust inn í Sýrland á sunnudag eftir hrinu loftárása.

Aðgerðir Tyrklandshers beinast gegn YPG, her Kúrda, en Tyrkir vilja meina að um sé að ræða hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda (PKK). Sá flokkur hefur í um þrjá áratugi verið útlægur frá Tyrklandi og álitinn hryðjuverkasamtök meðal annars af Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.

YPG hefur neitað því alfarið að vera hernaðararmur PKK og er aðili að hernaðarbandalaginu gegn ISIS, rétt eins og Tyrkir og sveitir sýrlenskra uppreisnarmanna sem nú aðstoða Tyrki í aðgerðunum gegn Kúrdum. Þrátt fyrir aðild sína að hernaðarbandalaginu hafa Tyrkir ítrekað fordæmt stuðning Bandaríkjamanna við YPG.

Samkvæmt bresku samtökunum Syrian Observatory for Human Rights náði YPG að brjóta Tyrki á bak aftur í tveimur bæjum. Þá hefur YPG greint frá því að tekist hafi að verjast Tyrkjum með sprengjuárásum nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×