Lífið

Tobba komin á heilsuhælið í Hveragerði

Tobba Marinós er þessa dagana í Hveragerði þar sem hún fer í nudd og byrjar að skrifa Makalaus 2.
Tobba Marinós er þessa dagana í Hveragerði þar sem hún fer í nudd og byrjar að skrifa Makalaus 2.

„Ég er í rauninni að fylgja ákveðinni hefð sem hefur skapast í kringum mín skrif en þegar ég vann hinar tvær bækurnar mínar dvaldi ég á tímabili á heilsuhælinu í Hveragerði,“ segir Þorbjörg Marinósdóttir, kynningarfulltrúi og rithöfundur, en hún er þessa dagana í eins konar fríi og vinnuferð í Hveragerði.

Tobba, eins og hún er kölluð, ætlar að dveljast á heilsuhælinu í viku en á milli þess að liggja í gufu og fara í nudd leggur hún drög að sinni þriðju bók, Makalaus 2. „Ég vil byrja strax að skrifa því persónurnar í bókinni eru ferskar í hausnum á mér núna. Ég er nýbúin að fara yfir handritið að sjónvarpsþáttunum og var því farið að klæja í puttana að demba mér í næstu bók,“ segir Tobba og bætir því við að bókin muni líklega gerast að hluta til í Hveragerði, jafnvel á heilsuhælinu. „Ég var að fá fregnir af því að heilsuhælið væri uppspretta margra ástarsambanda og í rauninni falin perla fyrir deitmenninguna. Ég ætla að rannsaka hvort eitthvað sé til í því.“

Tobba á rætur sínar að rekja til heilsuhælisins í Hveragerði en langalangalangafi hennar átti þátt í að stofna það á sínum tíma. „Þetta er yndislegur staður og fullkominn ef maður vill vera í ró og næði. Við fjölskyldan höfum farið þangað á hverjum sunnudegi og borðað grænmetishádegismat,“ segir Tobba að lokum, spennt yfir að ná loksins að slaka á eftir annasamt ár.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×