Erlent

Tjá sig um nauðungarvist hjá Boko Haram: „Þetta var ekki manneskjum bjóðandi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Hluti þeirra sem var bjargað úr haldi Boko Haram.
Hluti þeirra sem var bjargað úr haldi Boko Haram. Vísir/EPA
Sjö hundruð konur voru frelsaðar úr haldi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í liðinni viku. Fréttastofa Reuters greinir frá frásögn nokkurra þeirra sem segja liðsmenn Boko Haram hafa grýtt nokkrar þeirra eftir að þær neituðu að flýja með þeim þegar herinn nálgaðist búðir samtakanna.

Þá urðu einhverjar undir brynvörðum bíl og þrjár þeirra fórust þegar jarðsprengja sprakk.

Þær sem lifðu af til að segja frá þessum atburðum segja meðlimi Boko Haram hafa myrt karlmenn og drengi fyrir framan fjölskyldur þeirra þegar þær voru teknar höndum. Sumar þeirra voru neyddar í hjónaband.

Þær fengu aldrei að vera einar og var þeim meira að segja fylgt inn á salernið.

„Við máttum ekki hreyfa okkur,“ sagði Asabe Umaru við Reuters. „Við vorum allar keflaðar og geymdar á sama stað.“

„Við fengum maís í kvöldin. Þetta var ekki manneskjum bjóðandi,“ sagði Cecilia Abel við Reuters en þetta var eina máltíðin sem þær fengu yfir daginn og leiddi það til vannæringar, sjúkdóma og dauða margra.

Embættismenn áætla að flestar þeirra sem var bjargað úr haldi séu frá þorpinu Gumsuri sem er nærri bænum Chibok. Svo virðist vera að engin þeirra sem var bjargað í vikunni tilheyri hópi 300 stúlkna sem var rænt í Chibok  í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×