Körfubolti

Tíundi þjálfari kvennaliðs Grindavíkur á fimm árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Jakobsdóttir og félagar eru enn á ný komnar með nýjan þjálfara.
Ingibjörg Jakobsdóttir og félagar eru enn á ný komnar með nýjan þjálfara. Vísir/Stefán
Bjarni Magnússon, aðstoðarlandsliðsþjálfari, hefur tekið við kvennaliði Grindavíkur eftir að Björn Steinar Brynjólfsson var látinn fara.

Bjarni hefur mikla reynslu af kvennaboltanum og þjálfaði síðast lið Hauka í Domino´s deild kvenna frá 2011 til 2014. Fyrsti leikur hans með liðið verður bikarleikur á móti Njarðvík um helgina.

Björn Steinar var á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í meistaraflokki en hann stýrði liðinu aðeins í sjö leikjum. Grindavík vann tvo af þessum sjö leikjum en þeir komu báðir á móti liðum sem voru ekki með bandarískan leikmann.

Frá því að Jóhann Þór Ólafsson, núverandi þjálfari karlaliðs Grindavíkur, kom kvennaliðinu upp í efstu deild vorið 2012 hafa þjálfarar kvennaliðsins komið og farið.

Grindavíkurliðið skipti um þjálfara á miðju tímabili bæði 2012-13 og 2013-14 og enginn þjálfari hefur verið með liðið í meira en eitt tímabili.

Auk þessa stýrði Ellert Magnússon liðinu í tveimur leikjum á meðan skipt var um þjálfara tímabilið 2012-13.

Þetta þýðir að Bjarni verður tíundi þjálfari kvennaliðs Grindavíkur á undanförnum fimm árum sem er ótrúleg tala.

Það er líklega löngu orðið ljóst hvað er heitasta sætið í íslenska körfuboltanum í dag.

Þjálfarar kvennaliðs Grindavíkur undanfarin sex tímabil:

2016-17: Bjarni Magnússon

2016-17: Björn Steinar Brynjólfsson

2015-16: Daníel Guðni Guðmundsson

2014-15: Sverrir Þór Sverrisson

2013-14: Lewis Clinch

2013-14: Jón Halldór Eðvaldsson

2012-13: Crystal Smith

2012-13: Ellert Magnússon

2012-13: Bragi Magnússon

2011-12: Jóhann Þór Ólafsson (1. deild)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×