Erlent

Tíu milljónir íbúa Delí án vatns næstu daga

Bjarki Ármannsson skrifar
Heilar sextán milljónir manna búa í Delí og meirihluti þeirra stólar á vatnsleiðsluna sem nú er skemmd.
Heilar sextán milljónir manna búa í Delí og meirihluti þeirra stólar á vatnsleiðsluna sem nú er skemmd. Vísir/EPA
Rúmlega tíu milljónir manna í Delí, höfuðborg Indlands, eru án vatns eftir að mótmælendur þar í borg skemmdu leiðslu sem sér stórum hluta borgarinnar fyrir vatni. Öllum skólum borgarinnar hefur verið lokað vegna vatnsskortsins, sem talið er að muni standa yfir í þrjá til fjóra daga.

Mótmælendurnir eru úr röðum Jata, þjóðarbrots sem fer fram á aukin tækifæri til menntunar og starfa frá stjórnvöldum. Jatarnir búa flestir í norðurhluta Indlands og eru nokkuð ofarlega í stéttarkerfi landsins. Ákveðinn kvóti starfa og skólaplássa á Indlandi hefur frá árinu 1991 þurft að fara til lægri stétta en mótmælin nú eru tilkomin vegna þess að Jatar heimta að fá hlutdeild í þessum kvóta.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, hafa mótmælin staðið yfir í þrjá daga og kostað sextán manns lífið. Auk þess hafa hundruð manna særst.

Heilar sextán milljónir manna búa í Delí og meirihluti þeirra stólar á vatnsleiðsluna sem nú er skemmd. Íbúar höfðu margir hverjir gert ráðstafanir vegna hótana mótmælenda um að ráðast á leiðsluna og safnað vatni undanfarna daga. Það er þó ekki talið nægja íbúunum þar til hægt verður að koma vatni til þeirra á ný.

Mótmælendurnir hafa komið upp vegartálmum við borgina og segjast ekki ætla að taka þá niður fyrr en komið er til móts við kröfur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×