Innlent

Tíu mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu

Hinrik Geir hlaut tveggja og hálfs árs dóm fyrir þátt sinn í Stokkseyrarmálinu svokallaða.
Hinrik Geir hlaut tveggja og hálfs árs dóm fyrir þátt sinn í Stokkseyrarmálinu svokallaða. Fréttablaðið/GVA
Hinrik Geir Helgason, einn þeirra sem dæmdir voru í Stokkseyrarmálinu svokallaða, var á mánudag dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa svipt mann frelsi.

Kona sem var með honum í för var dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir frelsissviptinguna. Hinrik var auk þess dæmdur fyrir líkamsárás.

Í dómnum kemur fram að Hinrik hafi í félagi við þrjá aðra bundið manninn á höndum og haldið honum nauðugum í íbúð í Hafnarfirði í júlí síðastliðnum. Hinrik og annar óþekktur aðili hafi veist að manninum þar sem hann var sofandi, kýlt hann með krepptum hnefa í andlit og líkama og brotið í honum tennur.

Þá fékk maðurinn heilahristing, glóðarauga, vör sprakk og hann var hruflaður á öxlum og bringu.

Hinrik á sakaferil að baki frá árinu 2009. Meðal annars fyrir hlutdeild að Stokkseyrarmálinu svokallaða þar sem hann í félagi við fjóra aðra svipti mann frelsi og misþyrmdi honum. Hinrik hlaut tveggja og hálfs árs dóm fyrir það.

Konan sem var dæmd á einnig nokkuð langan sakaferil að baki, frá árinu 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×