Innlent

Tíu mánaða fangelsi: Braut gegn 14 ára stúlku í miðbæ Akureyrar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brotin áttu sér stað við Strandgötu 7-13 í miðbæ Akureyrar.
Brotin áttu sér stað við Strandgötu 7-13 í miðbæ Akureyrar. Vísir/Auðunn
Tvítugur karlmaður hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórtán ára stúlku. Maðurinn var á nítjánda ári þegar brotin áttu sér stað í miðbæ Akureyrar. Var hann dæmdur fyrir að hafa gegn vilja stúlkunnar káfað á henni innanklæða, bæði á kynfærum og brjóstum. Hins vegar þótti ekki sannað að maðurinn hefði klórað og sett fingur í leggöng stúlkunnar eins og hún hélt fram.

Ákærði og stúlkan þekktust lítið sem ekkert en höfðu verið í samskiptum á Facebook aðfaranótt 21. október. Stúlkan gisti umrædda nótt hjá vinkonu sinni en þáði boð mannsins um að fara í bíltúr ásamt fleirum. Sátu þau hlið við hlið og reyndi maðurinn að kyssa hana. Stutt stopp var gert við heimili mannsins og bauð hann henni að fylgja sér inn. Stúlkan neitaði hins vegar boðinu. Sagðist hún þurfa að hitta systur sína í miðbænum.

Yfirgáfu þau bifreiðina við Strandgötu og bauðst dæmdi til að bíða með henni. Sagði stúlkan að skömmu síðar hefði hann dregið sig á bakvið einhvern skúr. Myrkur hafi verið en hún hafi þó séð til fólks. Hins vegar hafi hún ekki þorað að kalla eftir aðstoð af ótta við að maðurinn myndi ráðast á sig.

Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.Vísir/Pjetur
Situr inni í tvo mánuði

Dómurinn taldi frásögn stúlkunnar trúverðuga á meðan framburður ákærða var reikull. Hins vegar þótti ekki sannað að ákærði hefði verið meðvitaður um að stúlkan væri yngri en 15 ára. Því var ekki dæmt eftir 1. málsgrein 202 greinar hegningarlaga sem snýr að samræði eða kynferðismökum við börn yngri en 15 ára. Stúlkan var 14 ára og þriggja mánaða þegar brotið átti sér stað en ákærði var 18 ára og sex mánaða. Þá fann dómurinn að því að stúlkan hefði ekki verið látin bera vitni fyrir dómi.

„Verður ákæruvaldið að bera halla af þeirri ráðstöfun sinni við sönnunarfærslu,“ segir í dómnum.

Þótti ljóst að maðurinn hefði brotið á stúlkunni, káfað innanklæða á kynfærum og brjóstum hennar, en þar sem ekki lágu fyrir sérfræðigögn á borð við áverkavottorð þótti ekki sannað að maðurinn hefði klórað og sett fingur í leggöng stúlkunnar.

„Þar sem frásögn hennar þykir ekki alveg skýr um þessi atriði og ekki var tekin skýrsla af henni við aðalmeðferð málsins er það niðurstaða dómsins að sýkna beri ákærða af þessum verknaði.“

Maðurinn hafði áður hlotið dóma fyrir brot gegn valdstjórninni og fíkniefnabrot. Hins vegar var litið til þess að hann var ungur að árum er brotið var framið. Þótti því tíu mánaða fangelsi hæfilegur dómur en þar af eru átta skilorðsbundnir. Krafist var einnar milljónar króna í miskabætur en fallist var á 600 þúsund krónur í bætur.

Dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×