Erlent

Tíu daga gömul stúlka brýtur blað í sögu öldungadeildarþingsins

Þórdís Valsdóttir skrifar
Duckworth kom með tíu daga gamla dóttur sína er hún greiddi atkvæði á þinginu.
Duckworth kom með tíu daga gamla dóttur sína er hún greiddi atkvæði á þinginu.
Hin tíu daga gamla Maile Pearl Bowlsbey braut blað í sögu öldungadeildar bandaríkjaþings í dag þegar hún var fyrsta barnið sem kemur inn í þingsal öldungadeildarinnar frá upphafi. BBC greinir frá.

Móðir hennar, öldungadeildarþingmaðurinn Tammy Duckworth, lagði fram þingsályktunartillögu á miðvikudag sem var samþykkt einróma, um að leyfa börn í sal þingsins. Degi síðar kom hún með tíu daga gamla dóttur sína með sér þegar hún greiddi atkvæði á þinginu. Duckworth hefur lengi verið talsmaður aukinna réttinda kvenna á vinnumarkaði.

Tillaga Duckworth kvað á um að þingmenn megi koma með börn yngri en eins árs með inn á þingið. Hún rökstuddi tillögu sína með því að fjölskylduvæn breyting sem þessi gæti sýnt gott fordæmi fyrir þjóðina. Með fæðingu Maile Pearl varð Duckworth fyrsti öldungadeildarþingmaðurinn í sögu þingsins sem eignast barn á þingsetu sinni.

„Ég vil þakka samstarfsfélögum mínum, frá báðum hliðum, fyrir að hjálpa mér við að koma öldungadeildarþinginu á 21. öldina með því að taka til greina að nýbakaðir foreldrar geti stundum þurft að sinna starfsskyldum sínum,“ sagði Duckworth í yfirlýsingu.

Duckworth deildi mynd af klæðnaði dóttur sinnar á Twitter og sló á létta strengi. „Ég gæti þurft að greiða atkvæði í dag svo klæðnaður Maile er tilbúinn. Ég passaði að hún væri í jakka svo hún brjóti ekki reglur þingsins um klæðaburð (sem gerir kröfu um jakka). Ég er ekki viss hvernig reglurnar eru varðandi heilgalla með öndum á, en ég held að við séum klárar,“ sagði Duckworth.

Duckworth sem er 51 árs gömul á eina dóttur fyrir, en þegar hún fæddist árið 2014 varð Duckworth fyrsta þingkona fulltrúadeildar bandaríska þingsins sem eignast barn á þingsetu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×